
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudag yfir manni sem ákærður var fyrir líkamsárás.
Manninum var gefið að sök að hafa, laugardaginn 20. apríl 2024, veist með ofbeldi að konu, innandyra í íbúðarhúsi í Kópavogi, og slegið hana með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á nefbeini.
Ekki tókst að fá ákærða til að mæta fyrir dóm þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess og fyrirheit hans um að mæta. Var því dómur kveðinn upp yfir honum fjarstöddum. Dómari taldi með hliðsjón af gögnum málsins fullsannað að hann hefði framið brotið.
Var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða brotaþola 600 þúsund krónur í miskabætur.