

Í skeyti lögreglu nú í morgunsárið segir að þar hafi aðili sem var fastur í handjárnum gengið inn og falast eftir aðstoð. Lögreglumenn náðu því miður ekki að leysa hann úr járnunum og ráðlögðu honum að leita á næstu slökkvistöð.
Alls gista níu í fangageymslum eftir nóttina og 59 mál eru bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Í miðborginni var tilkynnt um einstakling sem var að stela úr verslun og var auk þess ógnandi með vasahníf. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Í umdæmi lögreglustöðvar 2, sem sinnir Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, var tilkynnt um umferðaróhapp þar sem bakkað var á barn. Barnið hlaut sem betur fer aðeins minniháttar meiðsli en málið er í rannsókn hjá lögreglu.
Fyrir utan þetta voru nokkrir ökumenn teknir úr umferð vegna aksturs undir áhrifum áfengis.