

Ahmed hefur verið hylltur sem hetja enda er talið að hann hafi komið í veg fyrir að fleiri létust.
Hetjudáðin kostaði Ahmed, sem er innflytjandi frá Sýrlandi, þó mikið og var hann skotinn fimm sinnum í handlegg og öxl. Hann dvelur enn á sjúkrahúsi þar sem hann hefur meðal annars gengist undir nokkrar aðgerðir.
Ástralski fréttamiðillinn News.com.au greinir frá því að söfnun fyrir Ahmed á vefnum GoFundMe hafi farið fram úr björtustu vonum. Nú þegar hafa rúmlega 2,5 milljónir Bandaríkjadala, yfir 300 milljónir króna, safnast fyrir hann og áfram er búist við að upphæðin hækki.
Samtals hafa um fimm milljónir dollara safnast fyrir fórnarlömb harmleiksins, um 780 þúsund dollarar hafa safnast fyrir aðstandendur hinnar tíu ára gömlu Matildu sem var sú yngsta af þeim fimmtán sem létust.
Þá stendur söfnun fyrir aðstandendur Sofiu og Boris Gurman, sem voru skotin til bana þegar þau reyndu að stöðva byssumennina, í 650 þúsund dollurum.