

Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir sýkingavarnadeildar Landspítala, segir í myndbandi sem spítalinn birti í dag að nauðsynlegt sé að landsmenn hugi vel að hreinlæti og handþvotti, auk þess að mæta ekki veikt í veislur eða á vinnustaði.
„Við erum að fá slæman inflúensufaraldur og samhliða því skæðan nóróveirufaraldur. Þetta er hvort tveggja slæmt af því við erum að sigla inn í viðkcæmt tímabil sem eru jólaveislur, hlaðborð og þess háttar. Um jólin hittum við gjarna ættingja og vini og við þurfum að muna það að eldri einstaklingar í kringum okkur eru miklu viðkvæmari fyrir inflúensunni, þannig að við þurfum að huga að öllum þáttum sem við getum gripið til til þess að hindra útbreiðslu dreifingu inflúensu til viðkvæmra einstaklinga.”
Ólafur mælir með að viðkvæmir einstaklingar bólusetji sig til að hindra að þeir verði veikir.
Inflúensan er að byrja af miklum krafti og fyrr á ferðinni í ár enn áður. Ólafur segir að fólk verði að muna að það sé ávinningur af bólusetningu.
„Síðan þarf að hafa það í huga að fólk mæti ekki veikt á vinnustað eða í veislur. Það eru fleiri veirur í gangi og svo að auki eru þrjú bóluefni í þessum eina inflúensuskammti.”
Ólafur segir að ekki megi gleyma nóróveirunni, sem er gríðarlega smitandi og veldur mjög slæmum meltingarfærasýkingum með uppköstum og niðurgangi.
„Og er alveg gríðarlega smitandi. Þannig að það er mikilvægt að fólk sé ekki að vaða með kámugar krumlur í nammiskálar og mat sem er deilt milli margra. Þvo sér um hendurnar. Og ef fólk hefur veikst þá á það ekki að vera í matartilbúnaði fyrr en það er algjörlega búið að jafna sig og nokkrum dögum betur. Passa að þvo hendur vel áður en maður fer í matartilbúnað eða dreifa út mat, og eins gestir sem ætla að tína sér mat ættu að þvo sér vel og nota verkfæri til að skammta sér, ekki vaða með hendurnar í matinn.”