fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Fréttir

Ánægja með Eurovision-ákvörðun RÚV og Gunnar Smári skýtur fast á Miðflokksmenn – „Kannski færi best að þetta fólk myndi flýja land“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 17. desember 2025 20:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu er mikill meirihluti landsmanna ánægður með ákvörðun Ríkisútvarpsins að taka ekki þátt í Eurovision-söngvakeppninni á næsta ári. Þetta kom fram í kvöldfréttum Sýnar.

56,7 prósent segjast mjög ánægð, 14,2 prósent eru fremur ánægð og 12,2 prósent segjast í meðallagi ánægð. Aðeins 6,2 prósent eru fremur óánægð og 10,7 prósent eru mjög óánægð.

Lítill munur er á afstöðu milli aldurshópa og kynja. Mestur munur er á milli kjósenda mismunandi flokka. Ánægðastir eru kjósendur Vinstri Grænna, Sósíalistaflokksins, Pírata, Samfylkingar, Flokks fólksins og Viðreisnar. Óánægðistir eru kjósendur Sjálfstæðis- og Miðflokks. Aðeins 35 prósent kjósenda Miðflokks eru ánægðir.

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, skrifar í færslu á Rauða þræðinum á Facebook að niðurstaða könnunarinnar sýni að Miðflokksmönnum hafi ekki tekist að aðlagast samfélaginu.

„Þetta er sá hópur sem er ósáttastur við þróun samfélagsins og er á skjön við afstöðu meginþorra landsmanna í flestum málum; styður kvótakerfið, vill ekki skattleggja hin ríku, óttast útlendinga, samkynhneigða og transfólk o.s.frv. Og gerir linnulaust kröfur um að við hin aðlögumst þeirra fordómum og illvilja. Kannski færi best að þetta fólk myndi flýja land, reyna að finna samfélag sem betur höfði hugmyndum þeirra, kannski í suðurríkjum Bandaríkjanna, djúpt inn í Trumplandi.“

Skipuleggjendur Eurovision segjast hafa ráðist í breytingar vegna mikillar gagnrýni á fyrirkomulagi keppninnar. Til dæmis verður baul frá áhorfendum ekki lengur falið í útsendingu keppninnar eins og gert var í fyrra þegar Ísrael steig á svið. Þá hafði gervifagnaðarlátum verið bætt inn á útsendinguna í stað baulsins sem heyrðist í salnum. Nú verður leyfilegt að flagga palestínska fánanum, sem hefur verið bannað undanfarin ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu
Fréttir
Í gær

Metfjöldi sendinga á afsláttardögum

Metfjöldi sendinga á afsláttardögum