

Karl Ingi Vilbergsson, settur varahéraðssaksóknari, var handtekinn fyrir utan skemmtistað í ágúst og látinn gista í fangageymslu. Frá þessu greinir RÚV.
Téð atvik átti sér stað þann 9. ágúst en þá kölluðu dyraverðir til lögreglu eftir deilur við Karl Inga og aðra gesti skemmtistaðarins, sem er í Reykjavík. Karl Ingi var í framhaldinu handtekinn og færður í fangageymslu þar sem hann gisti um nóttina.
Saksóknaranum var boðið að ljúka málinu með því að greiða sekt upp á 30 þúsund krónur, en Karl Ingi afþakkaði en hann segir í samtali við RÚV að ekkert lögbrot hafi verið framið. Málið mun vera til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Karl Ingi var í sumarfríi þegar atvikið átti sér stað en sneri aftur til starfa nokkru síðar og var meðal saksóknara í Gufunesmálinu. Héraðssaksóknari segist bera fullt traust til Karls Inga. Málið hafi verið tekið til skoðunar innan embættisins og afgreitt.