

„Þann 24. október síðastliðinn á sjálfan Kvennafrídaginn var ég stödd á flugvelli á leið að heimsækja dóttur mína sem býr erlendis. Ég hef lítið val um þá frídaga sem ég fæ þar sem ég starfa sem grunnskólakennari og þarf því að ferðast á dýrasta ferðatímanum þegar margir eru að ferðast,“ segir Rakel meðal annars í grein sinni.
Í mannmergðinni á flugvellinum segist hún hafa heyrt tal nokkurra aðila sem voru að ræða launamál.
„Og mín laun voru ekki nálægt þeim launum sem rædd voru í þessu samtali. Meira að segja kom til tals hjá þessum aðilum að þeir tækju aðeins að sér kennslu í sínu fagi til að sýna góðverk því að launin fyrir kennsluna væru bara einhverjar baunir. Þarna stóð ég grunnskólakennarinn við hlið þeirra og sagði ekki orð en hugsaði um öll góðverkin mín í gegnum árin,“ segir hún.
Rakel heldur svo áfram og segir að þegar komið var upp í flugvélina hjá eina íslenska flugfélaginu sem er starfandi hér á landi hafi tekið á móti henni konur sem sinntu starfi sínu af fagmennsku.
„Það var ekkert minnst á Kvennafrídaginn í fluginu né gert vel við konurnar sem voru um borð þennan merkisdag eins og víða var gert á þessum degi. Ég sat eins og risaeðla í mínu flugsæti í Kvennafrísbolnum sem ég hafði keypt mér í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá fyrsta Kvennafrísdeginum.“
Rakel tekur svo fram í grein sinni að eflaust kynnu einhverjir að hugsa hvert hún sé eiginlega að fara með þessum skrifum.
„Málið er að virðismat kennara er í ferli og grunnstoðir menntakerfisins eru í molum og ég sé ekki í land með það að virði mitt sem grunnskólakennari verði metið að verðleikum á minni starfsævi.“
Rakel bendir á að hún hafi starfað við kennslu í um þrjátíu ár og fyrstu tuttugu árin hafi hún hækkað reglulega vegna starfsaldurs, en eftir það komi engin hækkun. Spyr hún hvaða skilaboð það séu til þeirra sem hafa lagt líf sitt og limi í starfið.
„Það er ekki að ástæðulausu sem innviðir okkar hér á Íslandi eru í molum. Við erum komin í innviðaskuld því að viðhald og uppbygging hefur setið á hakanum. Það er ekki nóg að vera ríkur og lifa í búblu allsnægta ef þeir sem halda uppi grunnstoðum samfélagsins lifa við sultarmörk og ófullnægjandi starfsaðstæður.“
Rakel segir að lokum að rannsóknir sýni að við náum ekki jafnrétti fyrr en fjölmennum láglaunakvennastörfum verður útrýmt og við virðum okkur í brók í dagvistunarmálum barna.
„Það er komið bakslag í jafnréttisbaráttuna. Margir halda því fram að jafnrétti sé náð og blása á það þegar einhverjir halda öðru fram. Þessir sömu eru með forréttindablindu og virðast ekki geta sett sig í spor annarra.
Á meðan við sitjum ekki öll við sama borð þá mun baráttan halda áfram. En auðvitað vonum við öll að sá Kvennafrídagur sem haldinn er verði sá síðasti.
Þangað til skiptir máli að vera upplýst um stöðuna og sofna ekki á verðinum. Við sem störfum við kennslu eða í öðrum láglaunakvennastéttum eigum ekki að þurfa að bíða á flugvelli og hlusta á aðra tala um baunirnar sem við fáum í laun.
Það gleymist oft að láglaunakvennastéttirnar sitja ekki heldur við sama borð og aðrir eftir að starfsævinni lýkur því að eftirlaunin haldast í hendur við laun á starfsævi viðkomandi.“