

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð um að maðurinn sæti nálgunarbanni til 12. maí 2026, en hann hefur verið ákærður fyrir margvísleg brot gagnvart fyrrum konu sinni og dætrum frá árinu 2017 til loka árs 2024. Aðalmeðferð hefur farið fram og er dóms að vænta á næstu vikum. Samkvæmt réttargæslumanni brotaþola eru konan og dæturnar enn hræddar við manninn en hann hafði áður verið úrskurðaður í nálgunarbann gegn þeim í maí.
Málið má rekja til þess að þann 17. apríl 2024 barst lögreglu tilkynning um konu sem beið fyrir utan lögreglustöðina við Hringbraut í Reykjanesbæ. Hún óskaði eftir því að fá að ræða við lögreglu. Hún var þangað komin með dætrum sínum tveim og óskaði eftir aðstoð við að sækja muni og nauðsynjar á lögheimili sitt. Hún sagðist ekki þora að gera það ein þar sem hún væri að sækja um skilnað frá eiginmanni sínum eftir langvarandi andlegt og líkamlegt ofbeldi um margra ára skeið. Sýndi hún lögreglu margar myndir af áverkum á henni.
Maðurinn undirritaði yfirlýsingu í framhaldinu þar sem hann sagðist reiðubúinn að koma ekki á eða vera ekki þar sem konan væri með lögheimili, veita henni eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í sambandi við hana, s.s. með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti í hálft ár.
Þann 29. nóvember var kallað til lögreglu að skóla eldri dótturinnar og hitti lögregla þar fyrir stúlkuna og móður hennar í miklu uppnámi. Stúlkan sagði að faðir hennar hefði verið á skólalóðinni þar sem hún var við leik og sagt sér að koma. Hún hefði orðið mjög hrædd og hlaupið inn í skólann til að biðja kennara um aðstoð. Maðurinn var í framhaldinu beðinn um að undirrita sams konar samkomulag aftur, en hann hafði byrjað að hringja í fyrrverandi eiginkonu sína um leið og fyrra samkomulagið rann út. Beðið var um sams konar úrræði gagnvart dætrunum. Maðurinn neitaði.
Þann 11. desember 2024 var manninum með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum gert að sæta nálgunarbanni gagnvart öllum brotaþolum til 14. maí. Áður en það rann út var óskað eftir framlengingu sem Landsréttur féllst á með úrskurði sama mánuð.
Dómari Héraðsdóms Reykjaness rakti í úrskurði sínum að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverð brot og ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en nálgunarbanni.