
Landsréttur hefur úrskurðað að dómari í héraðsdómi hafi gert sig vanhæfan með því hvernig hann tjáði sig um mál í tölvupósti til verjanda sakbornings. Hefur Landsréttur því ómerkt dóminn í málinu og vísað því aftur til héraðsdóms til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Í málinu var maður ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að brotaþola með ítrekuðum hnéspörkum í höfuð og búk. Maðurinn var ákærður samkvæmt 2. mgr. 218. greinar almennra hegningarlaga en þar segir:
„Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.“
Ákærði játaði brotið en taldi það eiga ekki að falla undir þessa lagagrein heldur undir 1. málsgrein 217. greinar almennra hegningarlaga:
„Hver, sem gerist sekur um líkamsárás, enda sé hún ekki svo mikil sem í 218. gr. segir, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 6 mánuðum], 1) en fangelsi allt að 1 ári, ef háttsemin er sérstaklega vítaverð.“
Í aðdraganda aðalmeðferðar málsins sendi héraðsdómari verjanda ákærða tölvupóst þar sem hann lýsti því meðal annars að hann teldi hæpið að heimfæra brotið undir 217. grein almennra hegningalaga.
Landsréttur telur að með tölvupóstinum hafi héraðsdómari lýst afstöðu sinnni til þeirra efnisvarna sem ákærði hefði teflt fram í málinu. Það með hafi komið upp réttmætur vafi um óhlutdrægni dómarans en það sé skylda dómara að gæta að hæfi sínu og láta ekki í ljósi efnislega afstöðu sína til ágreinings fyrr en í dómi. Þess vegna hefur dómur héraðsdóms í málinu verið ómerktur og honum vísað til löglegrar meðferðar og dómsálagninar á ný.
Sjá nána hér.