

Árið 2019 var starfsmaður forsetaembættisins sendur í leyfi og fékk skriflega áminningu vegna kynferðislegrar áreitni sem átti sér stað í vinnu- og námsferð starfsmanna til Parísar. Þáverandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þann 4. október það ár þar sem hann sagði viðkomandi hafa gerst sekan um „óþolandi athæfi gagnvart tveimur í ferðahópnum, kynferðislega áreitni í opnu rými og annað háttalag sem aldrei verður fallist á að afsaka megi á nokkurn hátt“.
Starfsmaður er nú hættur störfum og er að undirbúa skaðabótamál gegn ríkinu. Hann hefur vegna þess leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að fá afhent gögn, annars vegar frá embætti forseta og hins vegar frá ríkislögmanni.
Hvað embætti forseta varðar vildi fyrrum starfsmaðurinn fá:
Embætti forseta Íslands hafnaði að veita þessar upplýsingar með vísan til þess að þær teldust ýmist ekki fyrirliggjandi eða að þær heyrðu til undantekningareglna. Hvað varðaði fjórða töluliðinn væri óljóst hvaða upplýsingum væri óskað eftir og því ómögulegt að verða við beiðninni.
Starfsmaðurinn taldi þetta svar embættisins benda til þess að skráningarskylda hafi verið vanrækt og gagnrýndi synjunina. Um væri að ræða kerfisbundna vanrækslu og brot á lögbundnum skyldum til verndar starfsmanni.
Fram kemur í málinu að starfsmaðurinn hafi lagt fram bótakröfu sem ríkislögmaður hefur þegar hafnað. Úrskurðarnefndin tók undir með embætti forseta Íslands um að ekki bæri að afhenda upplýsingarnar.
Hvað ríkislögmann varðar freistaði starfsmaðurinn að fá aðgang að gögnum, þar með talið aðgang að samskiptum embættis forseta Íslands við ríkislögmann sem lögð hefðu verið til grundvallar í svarbréfi ríkislögmanns við bótakröfu mannsins. Úrskurðarnefnd rakti að ríkislögmaður hefði afhent tiltekna tölvupósta úr málaskrá, en hér væri hann að krefjast tölvupósts sem hefði verið ritaður í tilefni af framkominni bótakröfu. Slík samskipti varði könnun á réttarstöðu embættisins og falli undir undanþáguákvæði upplýsingalaga.
Áreitni viðkomandi beindist gegn tveimur samstarfsmönnum. Annar þeirra er Friðbjörn Beck Möller sem starfaði sem umsjónarmaður fasteigna á Bessastöðum og var búsettur þar ásamt eiginkonu sinni, en hjónin urðu bæði fyrir kynferðislegri áreitni í Parísarferðinni. Gerandinn greip í klof á Friðbirni og réðst síðar á eiginkonu hans í lyftu, greip í líkama hennar, rass og læri, svo hún hlaut mar af. Sama kvöld áreitti gerandinn samstarfskonu með því að hafa óviðeigandi orð um líkamsvöxt hennar. Bæði Friðbjörn og samstarfskonan sögðu starfi sínu lausu eftir að ljóst var að þau ættu að vinna áfram með gerandanum, en hann var aðeins tímabundið sendur í leyfi. Friðbjörn ræddi við DV árið 2021 þar sem hann gagnrýndi viðbrögð forseta við málinu, en Friðbjörn kærði áreitnina til lögreglu.