fbpx
Miðvikudagur 19.nóvember 2025
Fréttir

Styrktarféð verður notað til að endurnýja búnað og tæki 

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 19. nóvember 2025 15:29

Eymar afhendir Ingibjörgu styrkinn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýverið afhenti Pósturinn björgunarsveitinni Ósk og ungmennafélaginu Ólafi pá í Búðardal styrk upp á 905.000 kr. Upphæðin safnaðist í Pósthlaupinu síðastliðið sumar en þátttökugjald rann óskipt í þetta góða málefni. Ingibjörg Jóhannsdóttir, umsjónarmaður fjármála hjá björgunarsveitinni Ósk og gjaldkeri ungmennafélagsins Ólafs pá í Búðardal tók við styrknum sem Eymar Plédel Jónsson, framkvæmdastjóri viðskiptavinasviðs, veitti fyrir hönd Póstsins. 

„Þetta kemur sér afar vel fyrir björgunarsveitina sem getur endurnýjað tækjabúnað sinn og einnig í uppbygggingu ungmennafélagsins en þau skipta upphæðinni bróðurlega á milli sín,“ segir Ingibjörg og játar þegar blaðamaður spyr hvort búið sé að ákveða hvað eigi að fjármagna með styrktarfénu að þessu sinni. „Ungmennafélagið keypti núverandi húsnæði sitt árið 2020 en þar var áður bílaverkstæði. Við tókum húsnæðið í gegn þegar það var keypt og útbjuggum líkamsræktaraðstöðu fyrir íbúa í Dölum. Auk þess hafa tvö herbergi í húsinu verið leigð út fyrir snyrtistofu og hárgreiðslustofu en svo var eitt herbergi útbúið sem aðstaða fyrir sjúkraþjálfara eða aðra meðferðaraðila. Í könnun sem var gerð árið 2022 kom í ljós að 10-15% Dalamanna þyrftu á sjúkraþjálfun að halda og að flestir sóttu sér þá þjónustu í Borgarnes en þó ekki allir. Það kom líka fram í könnuninni að margir hefðu ekki tök á því að leita til sjúkraþjálfara, til dæmis þar sem þeir treystu sér ekki eða höfðu ekki tök á að fara um langan veg til að sækja sér þá þjónustu.“ 

Fyrsta íþróttahúsið í Búðardal í byggingu  

Hún segir að nýr sjúkraþjálfari muni taka til starfa í Búðardal á komandi ári. „Í nýja íþróttahúsinu sem verið er að reisa og verður vígt í febrúar á næsta ári, er verið að leggja lokahönd á nýja aðstöðu fyrir meðferðaraðila, svo sem sjúkraþjálfara, hnykkjara, nuddara og fleiri sem vilja koma til okkar. Okkur lánaðist að fá til okkar sjúkraþjálfara, unga konu sem er úr Dölum, sem verður með aðstöðu í nýja íþróttahúsinu sem verið er að byggja í Búðardal. Það verður mikill munur þegar íþróttahúsið verður tekið í notkun en hingað til hefur ekkert slíkt verið í Búðardal. Núna erum við að vinna í því að flytja þann sjúkraþjálfarabúnað sem til er yfir í íþróttahúsið og við ætlum líka að reyna að fjárfesta í fleiri tækjum fyrir sjúkraþjálfunina i nýja tækjasal íþróttahússins. Ungmennafélagið heldur þó áfram rekstri sínum í húsnæði félagsins.“ 

Mikilvægt að endurnýja björgunarbúnað 

Ingibjörg segir björgunarsveitina hafa notað styrktarféð til að endurnýja búnað og tæki og í ár verði engin breyting þar á, enda ávallt í nægu að snúast hjá sveitinni með sífjölgandi ferðamönnum á svæðinu. „Til dæmis voru keypt sexhjól sem hafa reynst vel við að sækja ferðamenn sem hafa haldið að þeir gætu keyrt eftir landpóstaleiðinni, sem einmitt er hlaupin í Pósthlaupinu, en er alveg ófær yfir vetrartímann. Björgunarsveitin hefur farið ófáar ferðir þangað upp eftir að sækja fólk, sem væri töluvert erfiðara ef ekki væri fyrir sexhjólin. Það er mjög mikilvægt að endurnýja björgunarbúnað og það er auðvitað gríðarstór fjármögnun svo stuðningur góðra styrktaraðila hefur komið sér mjög vel.“ 

„Mikils virði fyrir okkur, bæði fjárhagslega og félagslega“ 

Pósthlaupið fór fram í júlí síðastliðnum, fjórða árið í röð og Ingibjörg segir að enginn vafi leiki á því að hlaupið skipti samfélagið í Dölum miklu máli. „Við erum lítið samfélag, með um 670 íbúum, og til dæmis reynum við að halda uppi íþróttastarfi fyrir börn og unglinga og ég myndi segja að fyrir þann hóp væri Pósthlaupið til dæmis mikilvægt. Mörg yngri barnanna hafa tekið þátt í Póststubbnum, sem er eins og hálfs kílómetra leið í hjarta Búðardals, og spenna þeirra yfir að taka þátt í stubbnum er greinileg. Svo sjá eldri börnin fyrir sér að fara næstu vegalengd, sjö kílómetra, svo þetta er mikil hvatning til að taka þátt í hreyfingu og hafa gaman. Ekki má svo gleyma því að fólk kemur frá öðrum stöðum til að taka þátt og heimsækir þannig samfélagið; svo þetta er mikils virði fyrir okkur, bæði fjárhagslega og félagslega. Glímufélag Dalamanna hefur einnig verið með okkur í skipulagningu og umsjón með Pósthlaupinu en við erum ákaflega stolt af okkar krökkum sem hafa náð góðum árangri  í glímu.“ 

Og íbúar hafa verið duglegir að taka þátt, til dæmis með því að sjá um veitingar handa þátttakendum? 

„Já, slysavarnadeildin, sem er kvennadeild innan björgunarsveitarinnar, sá um að útbúa súpu sem boðið var upp á og mikil ánægja var með. Við reynum að kaupa allt hráefni af aðilum í heimabyggð og höfum haft það að markmiði alveg frá því fyrsta Pósthlaupið var haldið, að peningurinn myndi skila sér heim.“ 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Bók lýsir illum aðbúnaði barna og starfsfólks á íslensku munaðarleysingjaheimili í Kenýa – „Hrein og klár lygi“

Bók lýsir illum aðbúnaði barna og starfsfólks á íslensku munaðarleysingjaheimili í Kenýa – „Hrein og klár lygi“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sjö útköll hjá lögreglu í dag út af búðahnupli

Sjö útköll hjá lögreglu í dag út af búðahnupli
Fréttir
Í gær

Elín Edda ráðin fjármálastjóri Fastus

Elín Edda ráðin fjármálastjóri Fastus
Fréttir
Í gær

Anna breytti þessu eftir að hún kom að alvarlegu bílslysi – „Ég lærði af reynslunni“

Anna breytti þessu eftir að hún kom að alvarlegu bílslysi – „Ég lærði af reynslunni“
Fréttir
Í gær

Reknir úr snorklferð fyrir „ófullnægjandi sundkunnáttu“

Reknir úr snorklferð fyrir „ófullnægjandi sundkunnáttu“
Fréttir
Í gær

Er hætta á að netglæpamenn blekki þig? – Taktu netsvikaprófið

Er hætta á að netglæpamenn blekki þig? – Taktu netsvikaprófið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kallar eftir því að einhverfur vinur hennar fái tækifæri á vinnumarkaðinum

Kallar eftir því að einhverfur vinur hennar fái tækifæri á vinnumarkaðinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bræður sakfelldir fyrir að þvætta tugi milljóna og annar fyrir að tilkynna ranglega um líkamsárás í sumarbústað

Bræður sakfelldir fyrir að þvætta tugi milljóna og annar fyrir að tilkynna ranglega um líkamsárás í sumarbústað