

Jón Ármann Steinsson útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni segir andsvör Valtýs Sigurðssonar, fyrrum ríkissaksóknara og fyrrum yfirmanns fyrstu rannsóknarinnar í Geirfinnsmálinu, við gagnrýni höfundar bókarinnar og hans sjálfs ekki standast. Bókarhöfundur, Sigurður Björgvin, og systir hans, Soffía Sigurðardóttir sem aðstoðaði hann við gerð bókarinnar, auk Jóns Ármanns hafa haldið því fram að Valtýr hafi beint rannsókninni vísvitandi í ákveðinn farveg og frá því sem raunverulega hafi hent Geirfinn. Þetta hafi hann gert ekki síst til að hlífa tiltekinni konu sem hann hafi verið í tygjum við, vinkonu eiginkonu Geirfinns. Valtýr hefur vísað því á bug að kannast við þessa konu og hvað þá að hafa hitt hana. Í nýrri grein á Vísi segir Jón Ármann hins vegar það varla standast því umræddrar konu sé getið í skýrslum Valtýs sem hann hafi ritað fyrstu dagana eftir hvarf Geirfinns.
DV hefur áður fjallað um ásakanirnar í garð Valtýs en Soffía var afar harðorð í garð Valtýs í ítarlegri grein í ágúst síðastliðnum.
Valtýr svaraði greininni daginn eftir og sagði hana sjúklega.
Í síðasta mánuði skrifaði hann sjálfur grein á Vísi þar sem hann svaraði ásökununum í lengra máli og sagði þær fela í sér ótrúlegar aðdróttanir í sinn garð sem ættu sér enga stoð í veruleikanum.
Valtý rak í rogastans yfir aðdróttunum, níði og óhróðri gegn sér
Í greininni sagði Valtýr meðal annars að hann þekkti ekkert til þeirrar konu sem Soffía og bróðir hennar sögðu hann hafa verið að hlífa með því að beina rannsókninni á hvarfi Geirfinns í ranga átt. Hann hafi eftir birtingu greinar Soffíu hringt í umrædda konu og kynnt sig og hún staðfest að þau hafi aldrei hist.
Valtý rak í rogastans yfir aðdróttunum, níði og óhróðri gegn sér
Því svaraði Soffía með grein þar sem hún sagði meðal annars óneitanlega sérstakt að Valtýr hefði aldrei hitt konuna þar sem hún hefði verið náin vinkona eiginkonu Geirfinns og því óhjákvæmilega átt að koma eitthvað við sögu við rannsóknarinnar á hvarfi hans.
Soffía svarar Valtý: Þykir sérstakt að vinkona eiginkonu Geirfinns hafi aldrei hitt hann
Í grein sinni sem birtist á Vísi nú í kvöld segir Jón Ármann Steinsson að konan sem Valtýr segist ekkert þekkja til og aldrei hafa hitt sé nefnd í skýrslum Valtýs fyrstu dagana eftir hvarf Geirfinns. Einnig sé hún nefnd í skýrslum lögreglunnar í Reykjavík eftir að hún hafi tekið við rannsókn málsins af lögreglunni í Keflavík. Minnst níu aðilar nefni hana í alls 11 skýrslum, þar af Valtýr sjálfur í þremur þeirra.
Jón Ármann minnir á að konan hafi verið besta vinkona eiginkonu Geirfinns og segir hana hafa komið við á heimili þeirra tvisvar daginn sem hann hvarf. Morguninn eftir hvarfið hafi hún flutt inn á heimilið og verið þar þegar Valtýr kom í heimsókn eftir hvarfið.
Hann segir konuna hafa á þessum tíma leigt íbúð af Keflavíkurbæ og leyft konu Geirfinns að nota íbúðina til að hitta ástmann sinn. Kvöldið sem Geirfinnur hvarf hafi hún sjálf þurft að nota íbúðina til að taka á móti næturgesti og því hafi eiginkonan og ástmaðurinn hist á heimili hennar og Geirfinns.
Geirfinnur hvarf að kvöldi 19. nóvember 1974 og segir Jón Ármann að fram til klukkan 22 þetta kvöld hafi Valtýr, sem var þá fulltrúi bæjarfógeta í Keflavík en bjó á höfuðborgarsvæðinu, verið í Keflavík til að rétta yfir landhelgisbrjótum. Vísar Jón Ármann í frétt úr dagblaði þeirri fullyrðingu til stuðnings. Hvar Valtýr hafi gist um nóttina sé óljóst, líklega hafi það verið í Keflavík, en samstarfsmenn hans sem hafi venjulega deilt venjulega með honum bílfari til höfuðborgarsvæðisins hafi verið löngu farnir heim.
Um svipað leyti hafi Geirfinnur komið heim til sín en þá hafi verið þar fyrir eiginkona hans og ástmaður hennar. Geirfinnur hafi þetta kvöld aldrei farið í Hafnarbúðina til að hitta mann vegna spíraviðskipta heldur aðeins til að kaupa sígarettur. Kenning rannsóknaraðila um að hvarf Geirfinns tengdist slíkum viðskiptum hafi verið sett fram vísvitandi af Valtý til að beina henni frá því sem raunverulega hafi gerst.
Jón Ármann fullyrðir einnig að umrædd kona sem Valtýr segist aldrei hafa hitt hafi sótt fólk fyrir hann í yfirheyrslur meðal annars ástmann eiginkonu Geirfinns.
Jón Ármann segir að þýski lögregluforinginn Karl Schütz, sem var fenginn til landsins vegna rannsóknar á Guðmundar- og Geirfinnsmálunum á sínum tíma hafi strax séð að Valtýr hafi litið framhjá upplýsingum um að mikil öskur hafi heyrst frá heimili Geirfinns þetta kvöld.
Schütz, hafi séð nafn konunnar, sem Valtýr segist ekki þekkja til, koma oft fyrir í skýrslum og spurt hver eiginlega hún væri og af hverju honum hafi ekki verið sagt frá henni. Schütz hafi farið þrisvar til að ræða við eiginkonu Geirfinns og spurt um öskrin en hún hafi lítið viljað kannast við þau og ekki svarað frekari spurningum en verið afar taugaóstyrk og skolfið. Þjóðverjinn hafi loks ekki komist lengra með þennan anga málsins.
Jón Ármann ítrekar að lokum fyrri áskorun sína og Sigurðar Björgvins til lögreglu um að taka rannsókn málsins aftur upp. Meðal annars sé góð hugmynd að leita uppi umrædda konu sem Valtýr hafi átt auðvelt með að hafa upp á.
Grein Jóns Ármanns er hægt að lesa í heild sinni hér.