

Carl er í viðtali í Morgunblaðinu í dag vegna málsins og segir hann ákvörðun sambandsins vera gróft brot á EES-samningnum.
Hann segist gera ráð fyrir að ESB hafi í ákvörðun sinni litið til 112. greinar EES-samningsins um að þeir eigi rétt á að grípa til öryggisráðstafana. EES-samninginn verði þó að túlka í heild sinni og ekki sé hægt að líta fram hjá grundvallarákvæðum um fjórfrelsið og tryggðarskylduna.
„Ef ég væri dómarinn í þessu máli þá myndi ég án nokkurs vafa dæma gegn Evrópusambandinu,“ segir Carl í samtali við Morgunblaðið.
Spurður um hugsanleg næstu skref segir Carl að þar sem um er að ræða ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB gætu ríkin skoðað að láta reyna á rétt sinn innan ESB-dómskerfisins. Erfitt væri að fara með málið til EFTA-dómstólsins.
Hann er harðorður í garð framkvæmdastjórnar ESB.
„Svona kemur maður ekki fram í garð nánustu samstarfsríkja. Leiðtogar Evrópusambandsins hafa ítrekað sagt að EES-ríkin séu nánast eins og aðildarríki en sparka svo skyndilega í samstarfsríki sín með þessum ósanngjarna hætti,“ segir Carl við Morgunblaðið.