Frumsýningu nýrrar viðbótar við tölvuleikinn Eve Online verður streymt úr iðrum Raufarhólshellis í Brennisteinsfjöllum í kvöld. Gríðarlegt magn tækja og tölva hefur verið ferjað neðanjarðar og heilt streymisstúdíó sett upp auk þess sem háhraða-ljósleiðari hefur í samstarfi við Nova verið leiddur 400 metra niður í hraungöngin.
Hópur spilara mun spila leikinn í beinni ásamt því sem rætt verður við hönnuði og forritara í beinni útsendingu um viðbótina sem nefnist Catalyst. Öll spilun og framleiðsla útsendingarinnar fer fram í stórbrotnu umhverfi hellisins en hægt verður að horfa á hana í rauntíma um allan heim.
,,Viðbótin Catalyst sem verið er að kynna er að miklu leyti afturhvarf til uppruna Eve Online og leggur áherslu á námuvinnslu og framleiðslu frá grunni á fjarlægum hnöttum og smástirnum. Okkur fannst það því við hæfi að frumsýna leikinn í „hraunstreymi“ úr iðrum jarðar í mögnuðu umhverfi Raufarhólshellis,“ segir Kristján Einar Kristjánsson, viðburðar- og útsendingarstjóri CCP.
Útsendingin hefst klukkan 19:30 og verður sýnt beint frá spilun leiksins á
Twitch. Bjornbee, einn þekktasti streymari Eve heimsins, mun leiða spilunina en í hléi verður rætt við Greg Hennessey, yfirleikjahönnuð viðbótarinnar um gerð leiksins. Í lok útsendingar verður send út sérútgáfa spjallþáttarins NERDS þar sem farið verður yfir útgáfuna og verður sú útsending beint innan úr hellinum
„Það er ekki einfalt mál að spila tölvuleik í rauntíma á netinu niðri í helli eins og þessum, hvað þá að setja upp heilt streymisstúdíó. Við þurftum því að skoða ýmsar skapandi leiðir gagnvart því hvernig við myndum koma öflugri nettengingu ásamt miklum tækjabúnaði inn í hellinn til að láta af þessu verða og gera það kleift að senda allan viðburðinn út í rauntíma. Við vitum ekki til þess að þetta hafi verið gert áður hér á Íslandi og vorum því virkilega spennt fyrir því að framkvæma eitthvað af þessari stærðargráðu í samstarfi með CCP,“ segir Jónas Freyr Guðbrandsson, sérfræðingur í fyrirtækjalausnum hjá Nova.
EVE Online er íslenskur leikur gefinn út af CCP og hefur notið mikilla vinsælda um allan heim. Hann kom fyrst út árið 2003, hefur hlotið fjölda verðlauna og er enn einn stærsti fjölnotenda hlutverkaleikur sem spilaður er í heiminum.