fbpx
Fimmtudagur 09.október 2025
Fréttir

Díana nefnir dæmi um ótrúlega stöðu námsláns sem hefur verið greitt af í 12 ár

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 9. október 2025 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Menntun er fjárfesting fyrir allt samfélagið, hún á ekki að vera fjármálalegt fangelsi,“ segir Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ og ein þeirra sem tók svokallað G-námslán á sínum tíma, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Í grein sinni bendir Díana á að námslán á Íslandi hafi lengi verið kynnt sem leið til að tryggja jafnan rétt allra til menntunar, óháð félagslegri stöðu og efnahag. Þessi hugmyndafræði hafi verið meginröksemdin fyrir tilvist kerfisins þó hægt sé að deila um hversu vel það hafi tekist í framkvæmd.

„Fyrir þá sem tóku G-lán fyrir 2010 og H-lán á árunum 2010-2019 er veruleikinn sá að í stað þess að vera stuðningur til náms hefur lánið orðið að lífstíðarbyrði,“ segir Díana og bendir á að lán hafi, þrátt fyrir áratugalanga niðurgreiðslu, vaxið upp í hærri skuldir en upphaflega voru teknar.

„Ástæðan er verðtryggingin, sem tryggir að höfuðstóll hækkar í takt við verðbólgu. Einstaklingur sem tók tvö G-lán, upphafleg fjárhæð 4.388.705 og 3.234.098, alls 7.622.803, skuldar í dag 8.330.052 þrátt fyrir að hafa greitt af þessum lánum í 12 ár og er þetta því miður ekki einsdæmi,“ segir Díana og bætir við að þetta sé kerfisleg ósanngirni.

„Þeir sem tóku lán í gamla kerfinu sitja fastir í skuldafeni á meðan nýtt lánakerfi, sem tók gildi 2020, býður upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum og fyrirsjáanlegri greiðslubyrði. Það er gott skref, en það nær aðeins til nýrra lána,“ segir hún.

Díana nefnir að eldri lánþegar sitji eftir bundnir við úrelta skilmála sem gera lítið annað en að tryggja að skuldir hækki áfram.

„Þessir lánþegar sitja eftir í verðtryggingarvítahringnum. Þetta gengur þvert gegn þeim tilgangi sem lánin eiga að þjóna. Eldri lán ættu að fá að fylgja nýjum reglum, svo lánþegar sem þegar hafa lagt sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum menntun og vinnu geti átt raunhæfan möguleika á að greiða niður sínar skuldir eins og nýir lánþegar.“

Díana segir að lokum að menntun sé fjárfesting fyrir allt samfélagið og eigi ekki að fjármálalegt fangelsi.

„Ef stjórnvöld vilja standa undir þeim gildum sem námslánakerfið var upphaflega byggt á, þá er nauðsynlegt að gera breytingar núna og tryggja að sanngirni ráði ríkjum, óháð því hvenær lánin voru tekin. Ég hvet ríkisstjórnina til að endurskoða þetta strax og gera nauðsynlegar breytingar til að gefa öllum þeim sem hafa tekið námslán kost á að sitja við sama niðurgreiðsluborð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Svavar Knútur um uppsögn öryggisvarðarins í þinghúsinu – „Úthýsa verkefnunum til andlitslausra verktaka“

Svavar Knútur um uppsögn öryggisvarðarins í þinghúsinu – „Úthýsa verkefnunum til andlitslausra verktaka“
Fréttir
Í gær

Ákall frá fjölskyldu Möggu Stínu: „Við höfum misst allt samband“ – Var í skipi sem var stöðvað í nótt

Ákall frá fjölskyldu Möggu Stínu: „Við höfum misst allt samband“ – Var í skipi sem var stöðvað í nótt