fbpx
Miðvikudagur 29.október 2025
Fréttir

Reykvíkingar svara háðsglósum Norðlendinga vegna snjókomunnar fullum hálsi – „Þetta er ekkert grín þó sumum finnist það“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 29. október 2025 16:00

Myndin er úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og flestir lesendur ættu að vita skapaðist mikið vandræðaástand á höfuðborgarsvæðinu í gær vegna snjókomu og ófærðar. Lentu margir ökumenn í vandræðum en bent var margsinnis á að of mikið væri um að ökumenn færu út í umferðina á sumardekkjum. Mikill vandræðagangur var til að mynda á stofnbrautum í Reykjavík og snjómokstur í höfuðborginni virðist hafa gengið misjafnlega. Íbúar á Akureyri og aðrir Norðlendingar eru vanir mikilli snjókomu og að þurfa að komast leiðar sinnar við slíkar aðstæður. Hafa sumir þeirra hæðst að vandræðaganginum á höfuðborgarsvæðinu og þá einkum í Reykjavík í færslum á samfélagsmiðlum en íbúar höfuðborgarinnar hafa ekki látið það á sig fá og svara fyrir sig fullum hálsi.

Norðlendingar hafa dreift myndinni hér að neðan á samfélagsmiðlum.

Meðal þeirra er einn þekktasti skipstjóri landsins Páll Steingrímsson en hann fær bæði góðar undirtektir og andsvör við birtingunni en meðal andsvaranna má til dæmis nefna eftirfarandi:

„Dæmdu engan nema þú hafir verið í sporum (hjólförum) viðkomandi! Norðlendingar búa ekki við bæjarstjórn sem hefur á stefnuskrá sinni að þrengja að einkabílnum (Borgarlínan) og fjölga hjólreiðastígum á kostnað ökutækja. Síðan eru töluvert fleiri sem búa á höfuðborgarsvæðinu en norðan heiða, og margfalt fleiri bílar í umferðinni.“

„Ég sem hélt að Akureyringar væru læknaðir af margra ára minnimáttarkennd fyrir Reykjavík og nágrenni.“

Kona frá Akureyri sem er búsett í Reykjavík kemur núverandi heimkynnum sínum til varnar:

„Sem Akureyringur búsett fyrir sunnan ætla ég bara rétt að votta það samt að þessi ofankoma var helv.. hellingur.“

Kunna ekki að keyra í snjó og hálku

Björn Þorláksson fréttamaður á Samstöðinni, Mývetningur og íbúi á Akureyri til fjölda ára, en núverandi íbúi í Reykjavík ákvað að sleppa því að nota bíl í gær til að komast leiðar sinnar. Hann viðurkenndi þó að í honum byggi norðlenskt mont gagnvart Reykvíkingum og öðrum af höfuðborgarsvæðinu þegar kæmi að akstri í snjó:

„Nú á ég í harðri rimmu við eigin bresti, hégóma og mont, sem dæmi! Ég er enn á sumardekkjum, en reyndar góðum dekkjum, ég veit að ég ek sem Norðlendingur þaulvanur snjónum, skár en 96% ökumanna hér á höfuðborgarsvæðinu.“

Björn segist hafa glímt við þá löngun að óhlýðnast tilmælum lögreglu og að keyra í snjónum á sumardekkjunum:

„Mótþróinn. Og tilfinningin að vilja ekki vera aumingi! Veit! Steikt. En líka von um afrek. Í draumheimum sé ég fyrir mér hvernig allt vesalings fólkið á negldum dekkjum, sem þó kann eðlilega ekki vel að aka í snjó, situr fast, en ég svíf um á sumardekkjunum og veifa mannfjöldanum konunglega er ég sigli framhjá bílaröðunum!!! En nei. Nú þegar ég opna mig um brestina sé ég að það væri skemmtilegt og ögrandi, en ekkert vit.“

Björn ákvað á endanum að fara ferða sinna fótgangandi og færsla hans fær ekki eins sterk viðbrögð og færslur sumra annarra Norðlendinga um vandræðaganginn í Reykjavík í gær, en íbúi í Hafnarfirði vill þó meina í athugasemd að þar hafi snjómokstur gengið mun betur fyrir sig en í höfuðborginni.

Samstaða

Fleiri íbúar á Akureyri gerðu grín að Reykvíkingum í gær fyrir baksið í snjónum:

„Þetta eru erfiðir tímar og við verðum að standa saman og sýna kærleik og hlýju.“

Reykvíkingar létu ekki standa á svörum við þessum orðum:

„250.000 manna borg á móti 19.000 manna sveitabæ smá munur á gatnakerfinu, svo eiga ekki allir traktor hérna í borginni eins og þið í sveitinni.“

Á þá viðkomandi við höfuðborgarsvæðið allt en svörin voru fleiri:

„Komment um að íbúar höfuðborgarsvæðisins viti ekkert um akstur í snjó og hálku er gömul og lúin tugga.“

„Að Grafarvogur sé á stærð við Akureyri, þá sérð þú að það sé miklu stærra svæði sem þarf að moka og margfalt fleiri götur en er á Akureyri.“

„Akureyringar eru eins og afbrýðisami bróðir Reykvíkinga með minnimáttakennd.“

„Er ekki bara gott að íbúar á landsbyggðinni hafi eitthvað til að skemmta sér yfir í tilbreytingarleysinu … Hér býr meira en helmingur landsmanna svo þetta er ekkert grín þó sumum finnist það.“

Aldrei

Annar Norðlendingur stóðst heldur ekki mátið við að gera grín að vandræðaganginum í Reykjavík:

„Eftir fréttum og fésbók að dæma þá hefur víst aldrei sést snjór í Reykjavík áður og fáum hefur víst dottið í hug að búa sig undir að það gæti hugsanlega gerst. Við Norðlendingar búum yfir bæði æðruleysi og fyrirhyggju og njótum vetrarveðursins sem hér hefur ríkt undanfarnar vikur.“

Þessi færsla fékk einnig sterk andsvör frá íbúum í Reykjavík:

„Það fer nú mjög margt á hliðina á Norðurlandi í snjó líka, enda þarf margoft að sækja fólk hingað og þangað og upp á heiðar þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir. Hér eru á höfuðborgarsvæðinu eru meira en 100.000 bílar og uþb. 10x fleiri íbúar en á Akureyri. Svo hefur aldrei snjóað meira í október.“

„Alls ekki sambærilegt á neinn hátt.“

„Ég hef ekki oft upplifað, ef einhvern tímann, annað eins magn af snjó á innan við sólarhring.“

Hægt væri einnig að týna fleiri færslur til en það sem hér birtist eru aðeins nokkur dæmi.

Hafa ýmsir Norðlendingar einnig dreift myndbandi frá 2023 þar sem gert er grín að vandræðagangi við snjómokstur í Reykjavík og yfirvöldum þar kennt hvernig Akureyringar bera sig að við að ryðja snjó af götum bæjarins. Það er þó ekki bara bornir og barnfæddir Norðlendingar sem gera það en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins birtir myndbandið á sinni Facebook-síðu en hann er þó þingmaður Norðausturkjördæmis.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Aðsend grein Guðmundar Franklín vekur umtal – „Augljóslega að öllu leyti skrifuð af gervigreind“

Aðsend grein Guðmundar Franklín vekur umtal – „Augljóslega að öllu leyti skrifuð af gervigreind“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

„Pabbi, má ég innrétta bílskúrinn? Ég fékk ekki lán fyrir 60 fermetra íbúð. Ég er bara með 900.000 í mánaðarlaun“

„Pabbi, má ég innrétta bílskúrinn? Ég fékk ekki lán fyrir 60 fermetra íbúð. Ég er bara með 900.000 í mánaðarlaun“
Fréttir
Í gær

Stefán Máni segir frá tálbeitunni sem fylgt hefur honum í 17 ár – „Ég opnaði bara einhverjar dyr og Hörður gekk inn um þær“

Stefán Máni segir frá tálbeitunni sem fylgt hefur honum í 17 ár – „Ég opnaði bara einhverjar dyr og Hörður gekk inn um þær“
Fréttir
Í gær

Vilja að stemmt verði stigu við bílastæðabraskinu

Vilja að stemmt verði stigu við bílastæðabraskinu