

Erlendur karlmaður á sextugsaldri lést í Bláa lóninu í gær. Viðbragðsaðilar voru kallaðir til um miðjan dag eftir að maðurinn fannst meðvitundarlaus en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.
Gestur hótels Bláa lónsins segir marga í áfalli eftir atvikið, ekki síst eftir að starfsfólk veitti engar upplýsingar um atvikið. Hann gagnrýnir viðbrögð Bláa lónsins í langri færslu sem hann birti í gærkvöldi í hóp lúxusferðalanga á Reddit.
„Ég er sem stendur staddur á hóteli Bláa lónsins sem á að vera eitt besta hótelið á Íslandi. Það er gífurleg snjókoma sem leiddi til þess að flugi var aflýst sem gerði marga að strandaglópum í móttöku hótelsins og á sama tíma er hætta á eldgosi sem gæti byrjað hvenær sem er (samkvæmt upplýsingum sem við fengum við innritun) og yrði það til þess að rýma þyrfti hótelið.“
Gesturinn lýsir upplifun sinni á hótelinu sem hann segir ekki góða. Vandræðin hafi byrjað á mánudaginn þar sem hann snæddi á veitingastað hótelsins. Rafmagni sló út og þurftu gestir að bíða lengi eftir matnum í myrkrinu. Þrátt fyrir það hafi þeir þurft að borga fullt gjald fyrir matinn. Eins olli rafmagnsleysið því að margir komust ekki inn á herbergi sín þar sem aðgangi er stýrt rafrænt.
Það hafi því varla verið á það bætandi þegar snjókoman byrjaði og gestir strönduðu á hótelinu eftir útritun. Sjálfur lenti gesturinn ekki í þessari stöðu enda á hann ekki flug heim fyrr en síðar í vikunni. Hann ræddi þó við strandaglópa sem urðu gífurlega vonsviknir þegar þeim var tilkynnt að þar sem þeir hefðu þegar verið útritaðir gætu þeir ekki fengið aðgengi að aðstöðu lónsins nema gegn fullu gjaldi.
„Við töldum okkur heppin þar sem okkar flug er ekki fyrr en síðar í vikunni en við vorum samt slegin yfir köldum og vélrænum viðbrögðum á tíma þar sem gestir eru strandaðir og það er komið fram við þá eins og kýr sem enn er hægt að mjólka peninga úr.“
Gesturinn sem skrifaði færsluna fór sjálfur í heilsulindina eftir morgunmat en var fljótlega rekinn út af starfsfólki sem var greinilega í miklu uppnámi. Það var þó ekki útskýrt fyrir gestum hvað hefði gerst eða hvenær lónið myndi opna aftur. Þetta olli töluverðri óánægju og kvíða. Getgátur fóru á flug og fljótlega fóru gestir að velta því fyrir sér hvort einhver hefði látið lífið. Sjálfur taldi gesturinn um tíma að eldgos væri hafið.
Eftir mikla óvissu ræddi gesturinn við par sem hafði orðið vitni að harmleiknum.
„Þau voru í lóninu þegar þau heyrðu skyndilega hrópað á hjálp. Þau hlutu til og fengu starfsfólk til að huga að gesti sem virtist hafa fengið hjartaáfall. Eðlilega var parið í áfalli, en þeim var þó meinað að yfirgefa vettvang. Þau þurftu að bíða í kuldanum á sundfötunum á meðan þau horfðu á viðbragðsaðila gera endurlífgunartilraunir.“
Eftir að maðurinn var úrskurðaður látinn þurfti parið að stíga yfir líkið til að komast aftur inn, sem var þeim mjög þungbært. Verra þótti þó að enginn á vegum Bláa lónsins hlúði að þeim eftir þessa erfiðu reynslu.
„Þau áttu bara að sjá um sig sjálf eftir áfallið. Það eina sem þeim bauðst var 30 prósenta afsláttur af nóttinni, sem er minni fjárhæð heldur en gjald dagspassa í lónið.“
Gesturinn gagnrýnir að starfsfólk hafi ekki upplýst um harmleikinn og stöðu mála. Enginn hafi vitað neitt og gestum hafi ekki boðist nokkur aðstoð eftir erfiða upplifun. Dagurinn í gær reyndist mörgum erfiður og sá gesturinn suma með tárin í augunum í kvíðakasti. Þegar gestir lýstu yfir óánægju þá virtist starfsfólk ekki hafa nokkra heimild til að koma til móts við þá heldur þurfti alltaf að bera erindið undir næsta yfirmann. Það eina sem stóð til boða var smá afsláttur og möguleikinn á að útrita sig síðar í dag en til stóð.
„Ég hef aldrei nokkurn tímann verið jafn kjaftstopp yfir viðbrögðum hótels heldur en í dag.“
Gesturinn segir að algjört lágmark hefði verið að fella niður gjaldið fyrir nóttina eða bjóða minnst 50% afslátt. Eins hefði Bláa lónið átt að huga að gestum í áfalli, bjóða þeim teppi eða heitan drykk. Eins hefði hótelið átt að bjóðast til að ferja gesti annað, þeim að kostnaðarlausu, ef þá langaði að yfirgefa hótelið eftir þessa reynslu.
Trauma Dump of the Blue Lagoon Retreat
byu/DarceVader42 inchubbytravel