

Festi verður aðalstyrktaraðili Félags kvenna í atvinnulífinu á mögnuðu starfsári sem nú er hafið. Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, og Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, formaður FKA, undirrituðu samning þess efnis í húsakynnum Festi í vikunni á sama tíma og minnst er 50 ára afmælis kvennafrídagsins. Við tilefnið var baráttunnar og áfangasigrum sem hún hefur skilað 50 árum síðar minnst.
„Festi hefur markvisst unnið að því að brúa kynjabilið og það er draumi líkast að fá að stuðning og aðgang að fólki sem hefur jafnréttishugsjónina að leiðarljósi í allri stefnumótun og ákvarðanatöku,“ sagði Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir þegar samkomulagið var undirritað í húsakynnum Festi. „Festi samstæðan er til fyrirmyndar þegar kemur að jafnréttismálum þar sem skýr markmið tryggja að öll félögin ganga í takt. Þau átta sig á ábyrgð sinni í samfélaginu sem er svo fallegt.“
Markmið samstarfs Festi og FKA er að styðja við framþróun jafnréttismála og vera hreyfiafl til framfara. Ætlunin er að samstarfið feli í sér samtal og samvinnu þar sem opnað er á umræðu og aðgerðir um hvernig best er að vinna í átt að betra samfélagi fyrir alla þjóðfélagshópa.
„Á 50 ára afmæli kvennafrídagsins minntumst við hvað samstaða kvenna og vitundarvakning var mikilvæg í baráttunni fyrir auknu jafnrétti – ekki bara hér á Íslandi heldur fyrir heiminn allan. Viðburðurinn sýndi fram á mikilvægi þess að konur hefðu vettvang til að láta í sér heyra, miðla af reynslu sinni og berjast fyrir breytingum. FKA hefur verið leiðandi í að skapa þannig vettvang þar sem konur miðla þekkingu og hvatningu til annarra kvenna, hvort sem þær eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu, eru af erlendum uppruna eða hafa staðið í stafni á sínu sviði í áraraðir. Við í Festi viljum styðja við þessa vegferð FKA sem hefur með verkefnum á borð við Jafnvægisvogina stuðlað að aukinni umræðu um jafnréttismál í atvinnulífinu,“ segir Ásta S. Fjeldsted forstjóri Festi.
„Stjórnendateymi Festi er til fyrirmyndar og leiðandi á fjölmörgum sviðum þar sem jafnréttismál í víðum skilningi er tvinnað saman við alla stefnumótun. Með skipulagðri eftirfylgni og skýrum mælikvörðum er stefnunni fylgt eftir í öllum félögum Festi. Við erum ánægð að fá aðgang að þessari þekkingu og reynslu og vinna saman að því að jafna tækifæri kynjanna í atvinnulífinu og opna umræðuna frekar,“ bætir Ingibjörg við.

