

Háskólinn á Akureyri er þekktur fyrir sveigjanleika í námi enda býður hann upp á fjarnám. Ung móðir telur hins vegar að sveigjanleikinn sé meira í orði en á borði eftir reynslu sem hún er að ganga í gegnum núna.
Gerda býr er að læra til réttinda leikskólakennara í Háskólanum á Akureyri (HA). Námið er að mestu leyti fjarnám en á hverri önn er þó skyldumæting í eina viku fyrir þá sem eru í fullu námi.
„Ég ákvað að nýta fæðingarorlofið til þess að reyna klára námið mitt og því skráði ég mig í fullt nám. Það hefur gengið bara mjög vel og langflestir kennarar hafa tekið vel í það ef nemendur þurfa að mæta með börnin sín í tíma, því eins og flestir vita þá lifum við í þannig samfélagi að það er ekki sjálfgefið að finna pössun fyrir svona lítil kríli,“ segir Gerda í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni.
„Mér og annarri stelpu var nánast hent úr tíma bara fyrir það eitt að mæta með börnin okkar,“ segir Gerda sem hefur alvarlegar efasemdir um að mæður í fæðingarorlofi geti sinnt námi við skólann, miðað við þessa reynslu:
„Mér og annarri stelpu var nánast hent úr tíma bara fyrir það eitt að mæta með börnin okkar. Kennarinn vissi fyrirfram að það væri barn sem myndi fylgja móður í tíma. Stelpan sem senti tölvupóstinn um að fá leyfi til að mæta með barn fékk að vita deginum áður að það “væri ekki æskilegt að mæta með barn í tímann” en þar sem hún var mætt í lotuna frá sunnan og með engan til að passa þá hafði hún ekkert val en að mæta með barnið. Ég var í sömu stöðu en allir okkar ættingjar búa fyrir sunnan og eina manneskjan sem hefði getað passað var sjálf í lotu. Við mætum því í tímann og viðmótið var hreinlega ömurlegt.. okkur var meinuð þátttaka í verkefninu sem gildir 39% af lokaeinkunn…. Ég fer því og ræði við verkefnastjóra sem fer með mig til deildastjóra. Hann segist ætla ræða við kennarann og þau ætla reyna finna lausn.“
Gerda, eins og önnur móðir í sama námi, hafði ekki tök á því að koma barnnu sínu fyrir í vistun þennan tíma. Þar sem börn voru með í för var þeim meinuð þátttaka. Leit þá út fyrir að þær myndu missa heil 39% af lokaeinkunn og má ljóst vera að erfitt er að ná lágmarkseinkunn með slíkan bagga á bakinu.
Eftir fund með verkefnastjóra, deildarstjóra og viðkomandi kennara var niðurstaðan sú að þær mættu sækja 1/3 af þessari kennslu og áttu þær því aðeins fræðilegan möguleika á því að ná 13% af þessum 39%. Ekki var hægt að hnika þessu frekar til. Þær sendu póst til deildarstjóra eftir að kennslulotunni var lokið til að reyna að finna lausn til að vinna upp þessi 26 glötuðu prósent af einkunninni. En engin lausn var í boði:
„Hann bauð okkur fund tvisvar með kennaranum og þriðja aðila til þess að ræða framkomu hennar gagnvart okkur. Við samþykktum fundinn í bæði skiptin en við vildum einnig fá að ræða lausn á því að vinna upp þessi 26% sem við værum að missa. Samkvæmt honum þá var það ekki í boði og í stuttum orðum “kæmi honum ekki við þar sem kennarinn ræður”. Ef við viljum fá lausn þá verðum við að ræða við kennarann einar, sem við vorum búnar að gera en það var ekki hlustað á okkur. Hann benti okkur á aðra staði til þess að kvarta varðandi þetta mál.. skil ekki alveg punktinn þá af hverju við vorum að ræða þetta við hann í næstum tvær vikur ef hann gat ekkert gert.“
Gerda segir jafnframt að kennarinn sem vísaði þeim úr tíma hafi brotið trúnað með því að ræða þetta mál í almenningssundlaug og segja hvað henni þætti fáránlegt að enginn virtist deila þeirri skoðun hennar að börn eigi ekki heima í kennslutímunum.
Niðurstaða Gerdu er sú að námið við HA sé alls ekki sveigjanlegt og þar séu búnar til reglur sem koma í veg fyrir að mæður í fæðingarorlofi geti menntað sig.
Nokkrar umræður hafa orðið undir pistli Gerdu og vitna einhverjir netverjar um svipaða reynslu. Ein kona segir:
„Þegar ég var í kennaranáminu fyrir 3 árum var ég með 2 mánaða barn með mér. Ég fékk frábærar móttökur hjá bæði kennurum og nemendum nema í einn áfanga þar sem kennarinn eiginlega henti mér úr þar sem “börn eiga ekki heima hér”. Þannig ég þurfti bíða frammi þangað til tíminn væri búinn.“
Viðhorfið í umræðunni er almennt það að þessi vinnubrögð stríði gegn jafnrétti og því yfrlýsta markmiði skólans að bjóða upp á sveigjanlegt nám.