„Ég sé mig tilneydda til að bera hönd fyrir höfuð mér vegna ummæla fyrrum borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, í Spursmálum um daginn,“ segir María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttamaður á RÚV, í færslu á Facebook-síðu sinni.
Tilefnið eru ummæli Dags B. Eggertssonar, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, í tilefni af skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkur um samningar borgarinnar við olíufélögin um uppbyggingu á bensínstöðvarlóðum. Borgin gerði samninga við olíufélögin um byggingarrétt þeirra á lóðunum gegn niðurrrifi bensínstöðva.
Fjallað var um málið í þætti Kveiks sem María stýrði vorið 2024 en þátturinn vakti mikla athygli. Endurrit þáttarins er hér.
Fjallað var um skýrslu innri endurskoðunar í þættinum Spursmál á mbl.is fyrir skömmu. Þar er þeirri spurningu varpað fram hvort borgin hafi með þessum samningum við olíufélögin afhent 20 milljarða króna verðmæti án endurgjalds. Því hafnar Dagur en María er ósátt við ummæli hans í þættinum og skrifar:
„Ég sé mig tilneydda til að bera hönd fyrir höfuð mér vegna ummæla fyrrum borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, í Spursmálum um daginn. Þar segir hann að í Kastljósþætti sem ég vann í fyrravor, um samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin um umbreytingu bensínstöðvarlóða hafi verið „dylgjur um lögbrot, að borgarfulltrúar hafi verið í myrkrinu og upphafleg gögn hafi verið óskýr.“ Fyrrum borgarstjóri segir að þetta hafi allt verið hrakið í skýrslu Innri endurskoðunar sem nú hefur verið birt en umfjöllunin í Kastljósi leiddi til þess að ráðist var í endurskoðunina.
Í skýrslunni er bent á 12 tillögur að umbótum sem miða að því að bæta starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þær snúa einmitt að þeim atriðum sem fyrrum borgarstjóri nefnir og Innri endurskoðun telur brýnt að bæta úr. Hér er hlekkur á umfjöllunina i Kastljósi og tillögur Innri endurskoðunar.“
María birtir á Facebook-síðu sinni athugsemdir og úrbótatillögur innri endurskoðunar við í málinu en þetta má sjá með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.