Ráðstefna um verkefnastjórnun í framkvæmdaverkum 2025 verður haldin á Reykjavik Hilton Nordica 30. október. Tilgangurinn með ráðstefnunni er að vekja athygli á mikilvægi fagmennsku í framkvæmdastjórnun á Íslandi að sögn Jónasar Halldórssonar, framkvæmdastjóra JTV, sem heldur ráðstefnuna.
,,Eins og við vitum er grunnur að öllum byggingum góðir hönnuðir. Það er ekki hægt að treysta á tilviljanir, sama gildir um framkvæmdastjórnun. Góð stjórnun er ekki lúxus heldur nauðsyn, hún er lykilforsenda þess að framkvæmdir verði vel heppnaðar,“ segir Jónas.
Hann bendir á að Ísland standi frammi fyrir miklum framkvæmdum á næstu árum, allt frá innviðum í opinberum framkvæmdum til íbúðauppbyggingar og atvinnumannvirkja.
,,Reynslan sýnir að á öllum stigum framkvæmda geta komið upp áskoranir; tafir, kostnaðarfrávik, gæðavandamál og ófyrirséðar aðstæður. Líkt og nauðsynlegt er að byggingar séu hannaðar og gerðar af fagfólki, er einnig þörf á faglegri verkefnastjórnun í framkvæmdaverkum. Með markvissri og faglegri stjórn aukum við líkurnar á að verkefni nái markmiðum sínum, minnkum hættuna á mistökum og tryggjum meiri gæði fyrir verkkaupa, iðnaðinn og samfélagið í heild,“ segir Jónas og bætir við að markmiðið sé að efla framkvæmdastjórnun á Íslandi og styrkja þannig gæði, skilvirkni og áreiðanleika í öllum framkvæmdum. Að hans mati er mikilvægt að auka vitundarvakningu um nauðsyn faglegrar stjórnunar.
Jónas segir að einnig þurfi að auka þekkingu stjórnenda, hafa fleiri tæki og tól í verkfærakistunni.
,,Oft er talað um að til að bæta gæði bygginga sé þörf á góðu eftirliti, sem er gott. En það skiptir ekki síður máli að ferlið í hönnun og framkvæmd sé gert faglega. Í raun snýst verkefnastjórnun um að skipuleggja og undirbúa, til þess höfum við ferla. En við erum aðallega að þjálfa okkur upp í að bregðast rétt við í aðstæðum sem upp koma. Og til þess þurfum við verkfærakistu og þjálfun. Svona ráðstefna er einn lítill hlekkur í þeirri viðleitni.“
Ræðumenn á ráðstefnunni eru Stephen DeVito frá Procon Consulting, Ólafur Daníelsson frá ÓD ráðgjöf, Andrea S. Rutledge, Construction Management Association of America, Jón Kolbeinn, framkvæmdastjóri framkvæmda hjá Reitum, og Vala Björnsdóttir, partner og verkefnastjóri hjá JTV. Ráðstefnustjóri er Brynja Þorgeirsdóttir.