Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir til tilraun til manndráps og hótanir vegna atviks sem átti sér stað utandyra í Reykjanesbæ föstudagskvöldið 20. júní á þessu ári.
Ákærði er sakaður um að hafa hótað öðrum manni lífláti og skömmu síðar reynt að svipta hann lífi með því að leggja ítrekað til hans með hnífi í höfuð, bók og útlim. Brotaþolinn hlaut „djúpan skurð á innanverðum hægri framhandlegg, um 10- 15 sm langan, ásamt áverka á hægri ölnartaug með kjölfarandi a.m.k. tímabundinni skyn-og hreyfisskerðingu, grunnan skurð á hægri framhandlegg, um 2 sm langan, um 3 sm langan skurð framanvert á hægri öxl sem náði nær inn í handarkrika og sást þar niður í vöðva, 3 sm langan skurð hægra megin á ofanverðum kvið, um 2 sm neðan við bringubein, sem náði í gegnum ysta lag húðar, um 2 sm langan skurð aftan við vinstra eyra, niður frá hnakka og að hálsi og grunnan skurð á utanverðum vísifingri, um 1 sm langan,“ segir í ákæru.
Maðurinn er einnig ákærður fyrir fikniefnabrot og vopnalagabrot vegna fíkniefna sem fundust við húsleit á heimili hans, ásamt hnífi og haglabyssuskotum.
Brotaþoli krefst 4.755.562 króna í bætur. Krefst hann miskabóta upp á fjórar milljónir en afgangurinn af kröfunni greinist niður í skaðabætur og þjáningarbætur. Meðal annars er krafist bóta vegna sjúkrakostnaðar sem brotaþoli hefur þurft að bera.
Fyrirtaka verður í málinu við Héraðsdóm Reykjaness þann 29. október næstkomandi.