Norðurlandaráð hefur opinberað hver hljóta hin virtu verðlaun á sviði bókmennta, barna- og unglingabókmennta, kvikmynda, tónlistar og umhverfis. Verðlaunaféð fyrir hver verðlaun eru 300.000 danskar krónur og verða þau veitt í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi hinn 28. október.
Víkingur Ólafsson píanóleikari hlaut tónlistarverðlaunin en hann hefur í tvígang áður verið tilnefndur til þeirra verðlauna.
Í ár falla bæði bókmenntaverðlaunin og kvikmyndaverðlaunin í skaut Færeyinga. Þetta er í fyrsta sinn sem færeysk kvikmynd er tilnefnd til kvikmyndaverðlaunanna og er það myndin Seinasta paradís á jørð sem hlýtur þau. Bókmenntaverðlaunin fær Vónbjørt Vang fyrir ljóðasafnið Svørt orkidé og er þetta í fyrsta sinn frá árinu 1986 sem færeyskur rithöfundur hlýtur verðlaunin.
Barna- og unglingabókmenntaverðlaunin í ár hlýtur hin sænska Sara Lundberg fyrir myndabókina Ingen utom jag.
Þema umhverfisverðlaunanna í ár er „þáttur borgarasamfélagsins í umhverfismálum“ og eru þau veitt verkefninu Grønne Nabofællesskaber frá Danmörku.
Verðlaunahafarnir munu taka við verðlaunagripnum Nordlys við hátíðlega athöfn í sænska þinginu 28. október kl. 18 að sænskum tíma, í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Tekin verða viðtöl við verðlaunahafana í beinni útsendingu á sérstakri athöfn í Kulturhuset Stadsteatern í Stokkhólmi 27. október kl. 19 að sænskum tíma og þar gefst einnig tækifæri til að sjá verðlaunakvikmyndina.