fbpx
Þriðjudagur 21.október 2025
Fréttir

Kolbrún biður fólk um að vera vakandi fyrir svikum – „Helstu fórnarlömbin eru karlmenn á sextugs- og sjötugsaldri“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 21. október 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, biður fólk um að vera vakandi fyrir mögulegu ofbeldi gegn eldra fólki, einkum í tengslum við ástarsvik á netinu sem eru vaxandi vandi í heiminum. Hún ritar grein um málið sem birtist í dag hjá Vísi.

„Allir geta orðið fyrir netsvikum og það er ekkert til að skammast sín fyrir. Svikahrappar á netinu eru margir sérfræðingar í að leika á fólk og freista einskis í þeim efnum. Þeir sem telja sig hafa flækst í slíkan svikavef ættu skilyrðislaust að leita sér hjálpar hjá bönkum, lögreglu og eftir atvikum aðstandendum, allt eftir eðli málsins. Margir eldri borgarar eiga erfitt með tæknina og því viðkvæmari fyrir svikum. Dæmi eru um að fólk hafi misst aleiguna.“

Kolbrún mætti í síðustu viku á málþing um ofbeldi gegn eldra fólki og heyrði þar sláandi upplýsingar. Til dæmis kom þar fram að algengast sé að eldra fólk lendi í fjársvikum með milligöngu tækninnar, svo sem í gegnum síma eða samfélagsmiðla.

„Stærsti flokkur þessara svika varða meintar fjárfestingar og flestir þeirra sem verða fyrir þeim er fólk á aldrinum 65-80 ára. Dæmi um svik af þessu tagi eru gylliboð um fjárfestingar í fjármálagerningum með lítilli eða engri áhættu og mikilli ávöxtun. Einnig tilboð um fjárfestingar í rafmyntum og erlendum hlutabréfum. Þau sem láta glepjast tapa mörgu miklum fjárhæðum.

Það kom fram á málþinginu að fjárhagslegt ofbeldi hafi færst í aukana. Eldra fólk er til dæmis ginnt til að láta fé af hendi eða veita aðgang að heimabanka. Það sem er mest sláandi er að gerendurnir eru sjaldnast ókunnugir þeim sem verða fyrir svikunum.“

Þingmaðurinn vekur sérstaka athygli á svokölluðum ástarsvikum. Þá koma óprúttnir aðilar sér í samband við einstakling og byggja upp traust til að geta svo notað það til fjársvika.

„Svikahrappurinn er oft tilbúinn til að eyða löngum tíma í að sannfæra fólk um að treysta sér áður en hann biður um peninga eða upplýsingar. Allir geta lent í ástarsvikum en helstu fórnarlömbin eru karlmenn á sextugs- og sjötugsaldri. “

Þessir svikahrappar eru fljótir að lýsa yfir ást í þessum samskiptum og mæra verðandi fórnarlambið. Þegar traust hefur myndast og meint gagnkvæm hrifning fer svikahrappurinn að biðja um pening. Þetta fer gjarnan fram með þeim hætti að svikarinn segist vera í fjárhagserfiðleikum og þurfi aðstoð. Fórnarlambið, sem á þessum tíma treystir viðmælanda sínum, lætur þá gjarnan fé af hendi.

Kolbrún segir ýmsar leiðir koma að gagni til að verjast svona svikum. Það skipti fyrst og fremst máli að fara rólega í samskiptum við nýtt fólk á netinu. Það sé eins rétt að staldra aðeins við þegar viðmælandinn fer að verða ýtinn eða biðja um peninga.

„Við eigum öll að vera á varðbergi gagnvart greiðslubeiðnum, hvort sem um er að ræða millifærslur, áfyllingar eða annað og ekki samþykkja gylliboð um skjótfenginn gróða.“

Bestu aðgerðirnar séu forvarnir og eftirlit. Þeir sem búa við einangrun, einmanaleika og heilsubrest eru sérstaklega útsettir fyrir svona svikum, þá einkum þeir sem búa á eigin heimili.

„Við ættum því öll að vera á varðbergi ef okkur þykir eitthvað skrýtið eða óeðlilegt í lífi aldraðra ættingja eða vina og ekki hika við að spyrja og leita skýringa. Verum öll vakandi fyrir mögulegu ofbeldi gagnvart eldra fólki. “

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Víkingur Heiðar hlýtur verðlaun Norðurlandaráðs 2025

Víkingur Heiðar hlýtur verðlaun Norðurlandaráðs 2025
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Játning morðingja John Lennon – Ástæðan var einföld og sjálfselsk

Játning morðingja John Lennon – Ástæðan var einföld og sjálfselsk
Fréttir
Í gær

Bíræfinn þjófur rekinn úr starfi hjá Nettó

Bíræfinn þjófur rekinn úr starfi hjá Nettó
Fréttir
Í gær

Eflingarfélagar hafa áberandi lægstu tekjurnar 

Eflingarfélagar hafa áberandi lægstu tekjurnar