Lögregla var kölluð að Heaton Park Hebrew-samkomuhúsinu klukkan 09:30 í morgun, en margir voru á svæðinu vegna Yom Kippur, sem er helgasta hátíð gyðinga.
Lögreglan á Manchester-svæðinu staðfesti nú á tólfta tímanum að tveir hefðu látist og þrír væru alvarlega særðir. Talið er að árásarmaðurinn sé einnig látinn, en það verður ekki staðfest fyrr en sprengjusérfræðingar hafa fjarlægt búnað sem talið er að hafi verið skorðaður við hann.
Viðbúnaður lögreglu var mikill og gefur hann til kynna að lögregla gangi út frá því að um hryðjuverk hafi verið að ræða, að því er segir í frétt Daily Mail.
Myndband sem deilt var á samfélagsmiðlum virðist sýna vopnaða lögreglumenn beina skotvopnum að einhverjum liggjandi á jörðinni á meðan einn hrópar til vegfarenda: „Farið allir aftur, hann er með sprengju, farið í burtu.“
Sá sem liggur á jörðinni sést reyna að rísa upp áður en heyrast skothvellir og hann fellur aftur niður. Annar maður sést einnig liggja hreyfingarlaus fyrir utan hlið samkomuhússins með blóð á höfðinu.
Sir Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, mun fljúga fyrr heim af leiðtogafundi Evrópuríkjaí dag vegna málsins. Hann segir að aukinn viðbúnaður verði við samkomuhús gyðinga víða um landið vegna atburðanna í morgun.