Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, bendir á að flugrekstur á Íslandi sé afar krefjandi. Nýjasta dæmi um það sé fall flugfélagsins Play. Hann segir ekki sjálfgefið að hér á landi sé starfandi alþjóðlegt flugfélag. Á sama tíma séum við sem eyþjóð afar háð öflugum flugsamgöngum sem tengi okkur við umheiminn.
Í aðsendri grein á Vísi gagnrýnir Bogi fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra sem hefjast á morgun, mánudag, og fer yfir erfiðar aðstæður flugrekstrar hér á landi:
„Við Íslendingar verðum því að vinna saman að því að skapa rekstrarhæft umhverfi fyrir íslensk flugfélög – ekki öfugt. Verkfall flugumferðarstjóra sem nú er boðað beinist fyrst og fremst að Icelandair, en afleiðingarnar munu ná langt út fyrir okkar fyrirtæki. Síðasta vinnustöðvun flugumferðarstjóra árið 2023 kostaði Icelandair um 700 milljónir króna og olli verulegu raski fyrir farþega, íslenska ferðaþjónustu og útflutning. Enginn þessara aðila var hluti af deilunni en þeir báru kostnaðinn.
Við bætist að krónan er gríðarlega sterk um þessar mundir, sem gerir rekstur íslenskra flugfélaga, ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina enn erfiðari. Flugfélög eru „verðtakar“ í flestum stærstu kostnaðarliðum – eldsneyti, lendingar- og flugleiðsögugjöldum og kaupum á flugvélum – og er allur þessi kostnaður ákvarðaður á alþjóðlegum mörkuðum. Um þessar mundir leggjum við hjá Icelandair höfuðáherslu á hagræðingu í rekstri og höfum þegar gripið til fjölmargra aðgerða í þeim kostnaðarliðum sem við höfum stjórn á.“
Bogi bendir á að verkfallið sem hefst á morgun muni valda miklu tjóni sem lendi á þeim sem hafa enga aðild að launadeilu flugumferðarstjóra og Icelandair. Hann segir að það gangi ekki lengur að fámennir hópar geti lokað landinu:
„Við verðum að koma okkur á sama stað og hin Norðurlöndin þar sem svigrúm til launahækkana byggir á stöðu útflutningsgreinanna og verkföll verða ekki boðuð ef kröfur eru fyrir utan þann ramma. Það gengur ekki lengur að fámennir hópar geti lokað landinu með launakröfum sem grunnatvinnuvegir þjóðarinnar standa ekki undir.“