fbpx
Fimmtudagur 16.október 2025
Fréttir

Sakfelldur fyrir brot gegn stjúpdóttur – Meint gægjugat á vegg í þvottahúsi var skilnaðarorsök

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 16. október 2025 13:00

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest sakfellingu Héraðsdóms Suðurlands yfir manni fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni en mildað refsinguna úr sjö mánaða skilorðsbundnum dómi niður í fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm.

Manninum var gefið að sök að hafa brotið gegn stjúpdóttur sinni er hún var á aldrinum 12 til 14 ára með því að slá hana margsinnis á rassinn og fyrir að hafa einu sinni nuddað beran rass hennar, læri og innanverð læri.

Maðurinn neitaði sök, hann sagði rassskellingarnar hafa verið grín og glens sem stjúpdóttirin hafði ekki síður frumkvæði að. Hvað varðar nuddið þá kannaðist hann við að hafa nuddað hana eitt skipti er hún var stíf og aum eftir langan vinnudag, en neitaði því að hafa nuddað hana á hinum viðkvæmu svæðum.

DV fjallaði um dóm héraðsdóms í málinu fyrir um ári síðan og þar segir meðal annars:

„Móðir stúlkunnar tilkynnti upphaflega um brot mannsins til barnaverndar sem vísaði málinu til lögreglu. Tilkynningin barst í kjölfar tiltekins atviks en þá fór móðirin um leið að rifja upp hegðun mannsins sem henni hafi þótt sértstök. Sagði hún einnig í tilkynningunni að maðurinn hefði sett óviðeigandi athugasemd á Facebook-síðu dóttur hennar. Móðirin skýrði einnig frá því að maðurinn hafi í eitt skipti nuddað stúlkuna og hún hafi tekið eftir því að nuddolían hafi náð frá kálfum dóttur hennar og upp að rasskinn.

Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi stúlkan frá því að hún hefði kynnst stjúpföður sínum fyrst þegar hún var fimm eða sex ára. Samband þeirra hafi verið venjulegt en breyst þegar hún varð eldri. Maðurinn hafi tekið upp á því að vera alltaf að rasskella hana og vinkonu hennar. Henni hafi fundist þetta óþægilegt. Loks hafi hún beðið móður sína um að segja manninum að hætta þessu. Hann hafi orðið við því í nokkra mánuði en svo haldið áfram. Rassskellingarnar hafi byrjað þegar hún var 12 ára. Í eitt skipti hafi maðurinn sagt að henni gæti líkað við þetta sem henni hafi fundist ógeðslegt.

Í eitt skipti hafi hún fundið til í bakinu eftir langan vinnudag og stjúpfaðir hennar þá boðist til að nudda hana. Hún hafi verið í bol og stuttbuxum en hann farið innan undir stuttbuxurnar og nuddað rass hennar og innanverð læri þrátt fyrir að hún hafi sagt að hún fyndi til í bakinu. Vinkona stúlkunnar varð vitni að þessu.

Móðir stúlkunnar gekk síðan inn í herbergið og sá nuddolíuna á innanverðum lærum og rasskinnum dóttur hennar.“

Sjá einnig: Fékk skilorð fyrir kynferðisbrot sem hann kallaði glens

Móðirin tilkynnti manninn til barnaverndanefndar og í greinargerð félagsráðgjafa kom fram að stúlkan glími við mikla vanlíðan sem lýsi sér m.a. í svefntruflunum og miklu óöryggi. Stúlkan hafi sömuleiðis verið greind með kvíða.

Lenti í mótsögn við sjálfan sig

Í dómi héraðsdóms segir að ekki sé öðrum gögnum til að dreifa í málinu en framburði málsaðila og vitna. Því standi orð gegn orði en héraðsdómur finnur ákveðna mótsögn í framburði ákærða er varðar það hvort hann hafi nuddað rass stúlkunnar eða ekki. Um þetta segir orðrétt:

„Ekki er í máli þessum gögnum til að dreifa sem varða sakarefni málsins beint önnur en framburður aðila  og vitna. Ljóst er því að í málinu stendur orð gegn orði, bæði hvað varðar ásetning ákærða sem og upplifun brotaþola  á  atvikum  máls.  Við  mat  á  trúverðugleika  framburðar  aðila  verður  ekki  framhjá  því litið  að ákærði,  sem  kveðst  vera  vel  að  sér  í  líffærafræði,  neitar  að  hafa  nuddað  rass  brotaþola,  en  lýsti  því  þó sjálfur  fyrir  dómi  að  hafa  nuddað  hana  á  stærsta  vöðva  líkamans  „maximus vöðva“  sem  liggi  við spjaldhrygg. Alkunna er að stóri rassvöðvinn tengist spjaldhrygg að ofanverðu og lærlegg að neðanverðu og  ber  latneska  heitið  gluteus  maximus.  Er  þannig  innbyrðis  ósamræmi  í  framburði  ákærða  hvað  þetta varðar þótt hann viðurkenni ekki að hafa nuddað rass brotaþola. Brotaþoli hefur lýst því fyrir dóminum á trúverðugan hátt hvernig ákærði bar sig að, bæði hvað varðar nudd það sem lýst er í ákæru, sem og því hvernig hann hafi slegið hana á rass líkt og þar er lýst og hvernig hún upplifði framangreinda háttsemi hans.“

Ennfremur var það niðurstaða héraðsdóms að rassskelli mannsins gagnvart dótturinni væri ekki hægt að líta á sem grín og glens enda stúlkan komin á unglingsár en ákærði fullorðinn maður og hennar eina föðurímynd.

Viðhafði ummæli sem benda til kynferðislegs tilgangs

Rassskellirnir voru viðvarandi hegðun mannsins sem stjúpdóttirin bar fyrir dómi að hafi verið hlut af fíflagangi. Á hinn bóginn hafi maðurinn einu sinni viðhaft ummæli í tengslum við þetta sem benda til að hegðunin hafi verið af kynferðislegum toga. Um þetta segir í dómi Landsréttar:

„Í héraði bar brotaþoli um að ákærði hefði slegið hana í rassinn og að það hefði alltaf verið í kringum móður hennar eða vinkonu hennar E. Lýsti hún því að ákærði hefði reynt að „spila það sem svona djók“. Þá lýsti hún atviki sem átti sér stað í eldhúsi hússins að viðstaddri E. Brotaþoli hefði hangið yfir vegg í eldhúsinu og ákærði slegið í rass hennar og viðhaft ummæli um að hún gæti „fílað þetta“. Þegar ákærði hefði slegið í rass vinkonu hennar hefði brotaþoli rætt við móður sína um þessa háttsemi ákærða og beðið hana um að ræða við ákærða. Hann hefði látið af háttseminni í einhvern tíma en svo byrjað aftur. Spurð um það hvort hún hefði átt frumkvæði að samskonar háttsemi kvað hún svo vera. Hún hefði fíflast í honum og ýmist ýtt við honum eða slegið til hans. Hún hefði ekki slegið hann í rassinn heldur axlir hans eða haus. Þá lýsti hún þessari háttsemi einnig á þann veg að um hefði verið að ræða einhvers konar samskiptaform milli hennar og ákærða. Brotaþoli lýsti atvikum með samskonar hætti hjá lögreglu.“

Ásökun um gægjugat

Vinkona brotaþola, sem kölluð er E í texta dómsins, var viðstödd er maðurinn nuddaði stjúpdóttur sína á óviðurkvæmilegan hátt og var oft viðstödd er hann sló hana á rassinn, meðal annars við ofannefnt atvik. Fyrir Landsrétti var E spurði út í atvik sem tengist ásökunum móður brotaþola um að maðurinn hafi fylgst með stjúpdóttur sinni í sturtu í gegnum gægjugat á þvottahússvegg. Vitnið E segir þetta hafa komið fram á fundi sem hún átti með brotaþolanum, vinkonu sinni og móður hennar. Ákærði taldi ekki byggjandi á framburði vinkonunnar í málinu því framburðurinn hafi byggst á samtali sem hún hafi átt við vinkonu sína og móður hennar áður en hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Einnig sé ekki byggjandi á framburði eiginkonunnar þar sem þau hafi staðið í skilnaði um það leyti sem kæra var lögð fram gegn honum. Um framburð vinkonunnar, vitnisins E, varðandi gægjugatið, segir í dómi Landsréttar:

„Hún var sérstaklega spurð út í fund sem hún hefði átt með brotaþola og móður brotaþola í kjölfar þess að hin síðarnefnda hafði skýrt brotaþola frá gati á vegg í þvottahúsi, sem móðirin taldi að ákærði hefði notað til að gægjast inn í baðherbergið þegar brotaþoli var í sturtu. Hún var spurð út í það hvað hefði komið fram á þeim fundi. Um það bar vitnið að brotaþoli hefði viljað tala við hana þar sem henni hefði liðið illa. Við sama tækifæri hefði móðir brotaþola greint vitninu frá gatinu og jafnframt að sú uppgötvun hefði leitt til skilnaðar hennar og ákærða.“

Sem fyrr staðfesti Landsréttur sakfellingu mannsins en mildaði dóminn úr sjö mánaða niður í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Landsréttur staðfesti hins vegar niðurstöðu héraðsdóms um miskabætur mannsins til stúlkunnar, sem eru 1.250.000 krónur.

Dóma Héraðsdóms Suðurlands og Landsréttar í málinu mál lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Dóttir Katrínar Tönju og Brooks fædd

Dóttir Katrínar Tönju og Brooks fædd
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Sverrir gerir stólpagrín að tillögu Höllu Hrundar – „Orðinn dauðþreyttur á því að þessi sjálfumglöðu gamalmenni fái að njóta lífsins í ellinni!“

Sverrir gerir stólpagrín að tillögu Höllu Hrundar – „Orðinn dauðþreyttur á því að þessi sjálfumglöðu gamalmenni fái að njóta lífsins í ellinni!“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Flosi afar svartsýnn eftir komu á Landspítalann – „Þá tók ég stjórnina“

Flosi afar svartsýnn eftir komu á Landspítalann – „Þá tók ég stjórnina“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

„Á meðan kerfið sér „hættu” þá sé ég bara manneskju sem er að reyna að lifa einn dag í einu“

„Á meðan kerfið sér „hættu” þá sé ég bara manneskju sem er að reyna að lifa einn dag í einu“