Lögreglan hvetur fyrirtæki til að vera á varðbergi gagnvart tilraunum til fjársvika þar sem notuð eru fölsk íslensk fyrirtækjalén. Nú þegar hefur lögreglan til rannsóknar mál þar sem útlit er fyrir að erlendir aðilar séu að skrá íslensk lén með heitum sem líkjast íslenskum fyrirtækjaheitum til að svíkja erlenda birgja.
Að mati lögreglu er tilgangurinn með þessum sk´raningum að blekkja erlenda birgja tiltekinna fyrirtækja eða til að undirbúa það sem kallast forstjórasvik (e. Business e-mail Compromise).
Samkvæmt tilkynningu lögreglu eru dæmi um að minnsta kosti þrjú fölsk lén sem svipar til léna íslenskra fyrirtækja. Þeim hefur þó þegar verið lokað af ISNIC, skráningarstofu.is veffanga á Íslandi. Þeim fyrirtækjum sem eiga hlut í málinu hefur verið gert viðvart og hafa öryggisteymi þeirra gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir tjón.
Talið er að undirbúningur þessara svikaárása hafi átt sér töluverðan aðdraganda. Ekki sé því útilokað að fleiri fyrirtæki séu undir. Því hvetur lögreglan öryggisteymi og upplýsingadeildir fyrirtækja til að vera á varðbergi.
Við rannsóknina hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu notið aðstoðar frá netöryggisfyrirtækinu Ambögu sem fyrst tilkynnti málið til lögreglu.
„Hafir þú eða teljir þig eða fyrirtæki þitt hafa orðið fyrir netglæp mælum við með því að þú tilkynnir það strax til þíns viðskiptabanka og með því að senda lögreglu tölvupóst á cybercrime@lrh.is.“