„Hvernig getur Ísland — land sem státar sig af verndun mannréttinda, samstöðu og samkennd — tekið þátt í þessari grimmd Pútíns?“ segja þær Diana Burkot og Nadya Tolokonnikova, liðskonnur Pussy Riot og pólitískar flóttakonur frá Rússlandi.
Þær birta skoðanagrein á Vísi um mál hjónanna Gadzhi Gadzhiev og Mariam Taimova en þeim var vísað frá landinu ásamt börnum sínum nýfæddum, brottflutningur þeirra til Króatíu átti sér stað tveimur vikum eftir að Mariam fæddi tvíbura. Hjónin og lögfræðingur þeirra telja mikla hættu á því að frá Króatíu verði þau send til Rússlands þar sem þeirra bíði pólitískar ofsóknir. Nánasta fjölskylda Gadzhi, móðir hans, systir og bróðir, hafa þó fengið varanlegt dvalarleyfi á Íslandi.
Um þetta segja þær í grein sinni:
„Hér hefur verið framið ólýsanlegt hermdarverk, svo ómannúðlegt að það á sér enga málsvörn. Ekki einhvers staðar langt í burtu, ekki í Rússlandi, heldur hér á Íslandi.
Vestrænir miðlar spyrja okkur gjarnan sömu spurningarinnar: „Af hverju tala svo fáir Rússar gegn Pútín?”
Þetta er ástæðan — vegna þess að um leið og þeir gera það, eru þeir skildir eftir einir og yfirgefnir, sviptir allri von um að geta átt sér líf sem einkennist af öryggi og mannlegri reisn.
Þeir lifa í stöðugum ótta við að vera sendir aftur heim — til að vera dæmdir fyrir landráð,til að vera fangelsaðir það sem eftir er ævinnar.
Af þessu leiðir að svo margir kjósa frekar þögnina. Ekki vegna þess að þeir eru samþykkir, heldur vegna þess að þeir þekkja ógnarstjórnina af eigin raun.“
„Í Rússlandi var Gadzhi rænt, pyntaður og dæmdur í fimm ára fangelsi. Eini „glæpurinn“ sem hann hafði framið var sá að vera sonur konu sem þorði að tala gegn einræði — og fyrir að hafa sjálfur þorað að gera hið sama,“ segir ennfremur í greininni. Þ
Þær segja það óskiljanlega ákvörðun af hálfu Útlendingastofnunar að vísa úr landi fólki sem stendur frammi fyrir pyntingu og fangelsun.
„Hvernig getur Ísland — land sem státar sig af verndun mannréttinda, samstöðu og samkennd — tekið þátt í þessari grimmd Pútíns?“
Segja þær að fjölskyldunni verði að koma heim aftur til Íslands. Að öðrum kosti sé Ísland að gera sig hluta af þeirri harðstjórn sem fólkið er að reyna að flýja.
„Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld komi þessari fjölskyldu aftur hingað — og endurskoði stefnu sína gagnvart flóttafólki og pólitískum útlögum,“ segir ennfremur, en greinina má lesa hér.