Vika einmanaleikans er haldin í fyrsta sinn dagana 3. til 10. október. Það er Kvenfélagasamband Íslands sem stendur að baki Vikunni sem er ætlað að vekja samfélagið til umhugsunar um vaxandi einmanaleik.
Jenný Jóakimsdóttir verkefnastjóri segir að einmanaleiki fari vaxandi í samfélaginu sem hefur áhrif á fólk á öllum aldri og úr öllum kimum samfélagsins. Í samfélagi sem einkennist af hraða og tækni er brýnt að vekja athygli á mikilvægi mannlegra tengsla og samkenndar.
„Við erum spenntar að setja Vikuna formlega og hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að taka þátt í vikunni með okkur. Við viljum vekja samfélagið til umhugsunar um hvernig við getum öll verið virkari í að mynda tengsl. Vikan er ekki bara ætluð þeim sem upplifa sig einmana, heldur okkur öllum. Hún er tækifæri til að sýna samstöðu og skapa umhverfi þar sem góð samvera og góð tengsl eru í forgrunni,“ segir Jenný jafnframt.
„Við finnum öll fyrir einmanaleika einhvern tíma á ævinni og Viku einmanaleikans er ætlað að varpa ljósi á við getum öll verið til staðar hvert fyrir annað þegar við erum einmana,“ segir Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur sem situr í stýrihópnum sem sérstakur ráðgjafi hópsins.