fbpx
Laugardagur 04.október 2025
Fréttir

Ökumaður fór með 40.000 króna sekt alla leið upp í Landsrétt – Kom í ljós að klúðrið var lögreglunnar en ekki ökumannsins

Ritstjórn DV
Laugardaginn 4. október 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkissjóður situr eftir með sárt ennið eftir að 40 þúsund króna sekt endaði alla leið fyrir Landsrétti. Ökumaður hópbifreiðar hafði verið sektaður fyrir að geta ekki framvísað útprentun úr ökurita, en lögreglan sem stöðvaði hann hafði sjálf gleymt þeim búnaði sem eftirlitsaðilar eiga að hafa í fórum sínum til að geta lesið rafrænt af ökuritum.

Síðla kvölds þann 19. nóvember árið 2022 hafði lögregla afskipti af hópbifreið við bensínstöð til að kanna ástand og réttindi ökumanns. Ökumaðurinn framvísaði ökuskírteini og sagðist vera að flytja hópbifreiðina, farþegalausa, til Reykjavíkur. Ökumaðurinn gat þó ekki framvísað útprentun úr svokölluðum ökurita því hann var pappírslaus.

Lögregla tilkynnti ökumanni að hann hefði þar með gerst brotlegur við lög og var kynnt réttarstaða sakbornings. Ökumaðurinn, samkvæmt frumskýrslu lögreglu, sagðist skilja réttarstöðuna og játaði brotið. Þann 1. desember 2022 skilaði ökumaðurinn inn útprentun úr ökurita, þar sem kom fram hvernig akstri og hvíldartíma var háttað daginn sem lögregla hafði afskipti af honum var hagað. Þar var ekkert athugavert að finna.

Málinu var þó engan veginn lokið því það rataði alla leið fyrir Landsrétt sem nú hefur sýknað ökumanninn.

Fyrir dómi neitaði ökumaðurinn því að hægt væri að sekta hann fyrir brotið. Ökuriti hafi vissulega verið í bifreiðinni þó að pappír vantaði í prentarann. Eins hafi hann skilað útprentun til lögreglu nokkru síðar. Hann neitaði einnig að hafa gengist við brotinu. Ökumaðurinn taldi það ekki refsivert að vera ekki með pappír, enda hafi lögreglan sérstakan búnað sem hún getur notað til að lesa af ökurita á rafrænan hátt án þess að pappír komi við sögu.

Héraðsdómur taldi það ekki leysa ökumann undan ábyrgð þó að lögregla geti notað búnað til að lesa af ökurita. Það kom fram í reglugerð að ökumenn þurfi að geta framvísað gögnum, á borð við útprentun yfirstandandi dags, að ósk eftirlitsmanna. Þarna gat ökumaður ekki framvísað slíku gagni og hann því sekur. Var ökumanninum gert að greiða 40 þúsund króna fésekt sem og 644.800 krónur í sakarkostnað.

Þessu vildi ökumaðurinn ekki unna og áfrýjaði til Landsréttar. Landsréttur tók fram að óumdeilt væri að hópbifreiðin var búin rafrænum ökurita. Samkvæmt reglugerð ber lögreglu að nota tiltekinn búnað við eftirlit til að lesa upplýsingarnar úr ritanum. Í þessu tilviki var lögreglan ekki með slíkan búnað á sér og gat því ekki lesið ökuritann. Markmið reglna um aksturs- og hvíldartíma ökumanna sé að tryggja umferðaröryggi og bæta vinnuskilyrði. Túlka þurfi lögin og reglur á grunni þeirra í samræmi við þessi markmið. Reglugerðin sem héraðsdómur hafi vísað til verði ekki skýrt þannig að það sé refsinæmt að geta ekki afhent útprentun úr ökurita þegar fyrir liggur að upplýsingarnar væri hægt að afhenda með öðrum hætti. Það sé ekki ökumanninum að kenna að lögregla var ekki með þann búnað á sér sem hefði gert henni kleift að lesa ökuritann.

Ökumaðurinn var því sýknaður og allur kostnaður vegna málsins í héraði og fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ökumannsins, 1.481.800 kr. og er þá ótalinn sá kostnaður sem ríkið sjálft hlaut af málarekstrinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt