Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, vekur athygli á þessu í pistli á vef Vísis og bendir á að samkvæmt tölum frá Embætti landlæknis hafi enginn dáið úr fjölþáttaógn á Íslandi.
„Á tíu ára tímabili, 2014 til 2023, létust hins vegar 752 Íslendingar vegna geðheilsutengds vanda,“ segir hann og á þar við sjálfsvíg og lyfjaeitranir. Á þessu sama tímabili dóu svo sautján Íslendingar, yngri en 18 ára, vegna geðheilsutengds vanda, 160 á aldrinum 18 til 29 ára og 234 á aldrinum 30-44 ára.
„Samtals dóu 304 Íslendingar á aldrinum 10 til 29 ára á þessu 10 ára tímabili. Dánarorsök 177 þeirra var geðheilsutengdur. Þetta þýðir að 58% þeirra, sem dóu á þessum aldri, dóu vegna geðheilsutengds vanda.“
Grímur bendir á í grein sinni að frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar til ársins 1991 hafi Sovétríkin verið helsta ógn okkar á vesturlöndum.
„Þegar kalda stríðinu lauk þurftum við nýja ógn og hana fundum við í hryðjuverkum og Osama Bin Laden. Þegar búið var að ráðast inn í fjölmörg ríki og lýsa yfir sigri í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ þurfti að finna nýja ógn. Hún er nú fundin og kallast: fjölþáttaógn. Og peningarnir streyma í þessa vá – rétt eins þeir streymdu í aðrar vindmyllur alheimsógna vopnaframleiðenda. Þjóðaröryggisráðið ítrekað kallað saman og brúnaþungir ráðamenn eru ómyrkir í máli,“ segir hann.
En er þetta hin raunverulega ógn sem steðjar að okkar samfélagi? Grímur segir að svo sé ekki enda hafi 177 einstaklingar hér á landi dáið vegna geðheilsubrests á 10 ára tímabili.
„Þetta er hin raunverulega ógn sem steðjar að okkar samfélagi. Það hefur hins vegar enginn farið í málþóf eða kallað eftir neyðarfundi í þjóðaröryggisráði vegna þessarar banvænu ógnar. Á henni er ekki tekið í fjárlagafrumvarpi ársins 2026 – hvorki í umfjöllun eða aðgerðum,“ segir Grímur sem varpar frekara ljósi á þetta.
„Orðið geð, sem orð eða hluti af orði, kemur 12 sinnum fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Orðin öryggi og varnar, sem heil orð eða hluti af öðrum, koma hins vegar fyrir 69 sinnum í sama frumvarpi. Þá er búið að draga frá öryggisvistun og öryggisúrræði sem tengjast fangelsis og geðheilbrigðismálum. Hver er hin raunverulega ógn sem steðjar að íslensku samfélagi?“