fbpx
Fimmtudagur 02.október 2025
Fréttir

Telur leigjendur á Íslandi vantalda um 75.000 – „Það er nú svolítið mikil skekkja.“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 2. október 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru miklu fleiri á leigumarkaði Íslands heldur en áður var talið. RÚV greindi frá því fyrr í vikunni að ný könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) bendi til þess að erlendir ríkisborgarar hafi verið verulega vantaldir í búsetukönnunum til þessa sem hafi leitt til þess að stærð leigumarkaðarins hefur verið vanmetin. Samkvæmt könnun HMS í fyrra voru 15 prósent fullorðinna á leigumarkaði en nú er komið á daginn að þessi tala tekur ekki nægjanlegt tillit til erlendra ríkisborgara.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, segir í samtali við Bítið á Bylgjunni að hann hafi reynt að benda á þetta lengi. Vanáætlaður leigumarkaður geri að verkum að stjórnvöld byggi ekki aðgerðir sínar á réttum tölum og sjái ekki hversu alvarleg staðan á leigumarkaði er orðin og hvað það hefur áhrif á marga.

„Þetta hefur verið viðvarandi vandamál,“ segir Guðmundur og rekur það allt aftur til áranna eftir hrun. Þá hafi Hagstofan farið að taka saman tölur yfir fjölda heimila í séreign sem fór fækkandi á því tímabili. Síðar var ráðist í að leiðrétta tölurnar á árunum 2017-2018 samhliða mikilli fólksfjölgun. Guðmundur bendir á að íbúðum fjölgaði kannski um 14-15 þúsund á einhverju árabili og samhliða hafi aðeins verið áætlað að leiguíbúðum hafi aðeins fjölgað um 400 og aðeins um 900 íbúðir komist í eign einstaklinga með eina íbúð. Af þessum orðum Guðmundar má ráða að stjórnvöld hafi átt að setja spurningarmerki við áætlun á stærð leigumarkaðar mun fyrr enda rúmist 14-15 þúsund nýir íbúar ekki innan 400 leiguíbúða og 900 keyptra eigna.

„Þannig að árið 2018 gera þeir stóra leiðréttingu sem nær nokkur ár aftur í tímann. En svo árið 2019 þá í raun afturkalla þeir leiðréttinguna og segja að á árinu 2019 hafi heimilum á leigumarkaði fækkað um 12.600 á einu ári. En á sama tíma eru að flytja inn til landsins 4-5 þúsund manns.“

Guðmundur reiknaði það saman árið 2023 að líklega væru leigjendur vantaldir um 75.000.

„Það er nú svolítið mikil skekkja.“

Leigjendum hafi fjölgað samhliða samdrætti í eignarhaldi einstaklinga með eina íbúð. Þetta helst auðvitað í hendur enda fjárfestir fólk gjarnan í aukaíbúðum til að leigja þær út.

Guðmundur bendir á að HMS hafi metið stærð leigumarkaðar í gegnum kannanir og fengið fyrirtækið Prósent til að sinna þeim. Gallinn við það sé sá að Prósent styðst við fyrirfram skilgreindan hóp sem hefur samþykkt að taka þátt í könnunum. Þessi hópur samanstandi líklegast fyrst og fremst af Íslendingum sem séu auk þess í betri stöðu en þeir sem verst hafa það á leigumarkaði, enda hafi þeir síðarnefndu um nóg annað að hugsa en að taka þátt í skoðanakönnunum.

Vanáætlun leigumarkaðar hafi áhrif á margt, til dæmis afstöðu og ákvarðanatöku stjórnvalda.

„Alþingismenn mega ekki nota hvaða tölur sem er, mega ekki fara með einhvern orðróm á Alþingi og segja: Heyrðu þetta er svona, leigumarkaðurinn er 27% af öllum heimilum. En það stendur hjá HMS, upplýsingagátt Alþingis frá HMS, að þetta séu 13-17 prósent. Og það lætur þingheim hafa þá tilfinningu að það sé í rauninni allt í standi, jafnvel að leigumarkaðurinn sé að dragast saman. Ekki bara í standi heldur mjög vel gert og allt á réttri leið. Á meðan er þetta að fara í þveröfuga átt.“

Guðmundur Hrafn bindur vonir við að stjórnvöld hlusti núna og átti sig á umfangi leigumarkaðs og stöðu hans. Hann hefur trú á þingmönnum Flokks fólksins, Ragnari Þór Ingólfssyni og Ástu Lóu Þórsdóttur, en einnig hafði hann átt góð samtöl við ráðherrana Kristrúnu Frostadóttur og Jóhann Pál Jóhannsson þegar þau voru enn í stjórnarandstöðu á Alþingi. Til standi að ræða við ráðherra á næstunni og Guðmundur Hrafn vonar að þau séu tilbúin að hlusta enda standi og falli lífskjör leigjenda með „þessu fáa fólki sem er hér á þingi og hefur sýnt okkur svona samstöðu í gegnum tíðina“.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Telur að stækkun NATO hafi verið ein meginástæða stríðsins í Úkraínu

Telur að stækkun NATO hafi verið ein meginástæða stríðsins í Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Viðar varð vitni að bardaga hvítabjarnar og svartbjarnar – „Virðist sem menn hafi aldrei áður náð þessu á mynd“

Jón Viðar varð vitni að bardaga hvítabjarnar og svartbjarnar – „Virðist sem menn hafi aldrei áður náð þessu á mynd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eldri kona óttast að hafa misst vini til 40 ára á Íslandi – Hafa ekki talað við hana eftir covid smit

Eldri kona óttast að hafa misst vini til 40 ára á Íslandi – Hafa ekki talað við hana eftir covid smit
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erlendur ferðamaður sár og svekktur yfir hraðasekt – „Er eitthvað sem ég get gert í þessu?”

Erlendur ferðamaður sár og svekktur yfir hraðasekt – „Er eitthvað sem ég get gert í þessu?”