Hundar Fast & Furious stjörnu eru óargadýr. Þeir hafa drepið tvo aðra hunda og halda hverfinu í gíslingu.
Lögreglan í bænum Buckhead í Georgíufylki í Bandaríkjunum var kölluð út að húsi gegnt heimili leikarans Tyrese Gibson fimmtudaginn 18. september vegna hundaárásar. Þar býr maður að nafni Harrison Parker sem átti hund sem drapst í árásinni.
Hundurinn var fimm ára gamall rakki að nafni Henry sem herra Parker fann látinn með sár og innbyrðis blæðingar.
„Ég fann hann dauðan á bílaplaninu hjá mér,“ sagði Harrison. „Að heyra ekki í honum var hræðilegt. Hann var einn af ljúfustu hundunum og að hann hafi verið myrtur er ólýsanlegt.“
Gibson, sem er þekktastur fyrir að leika í kvikmyndaseríunni Fast & Furious, viðurkenndi verknaðinn og sagðist ætla að afhenda Dýraþjónustu borgarinnar hundana sína sem drápu Henry. En Gibson á sterkbyggða hunda af tegundinni Cane Corso.
En eftir að Gibson kom ekki með hundana ákvað lögreglan að gera húsleit á heimili hans þann 22. september. Þá var hann hins vegar á bak og burt.
„Það er vanræksla af hálfu húseigandans að leyfa hundunum að valsa lausir um,“ sagði lögreglukonan Nicole Dwyer. „Og nú hafa þeir drepið annað saklaust dýr.“ Ekki hefur hins vegar verið greint nánar frá þeirri árás eða hvar Gibson og hundarnir hans eru niðurkomnir.