Í byrjun mánaðar var 30 starfsmönnum sagt upp í kísilmálmverksmiðju PCC á Húsavík og kom það til viðbótar við þá 80 sem sagt var upp um miðjan júlí vegna tímabundinnar rekstrarstöðvunar fyrirtækisins.
Aðalsteinn er í viðtali í Morgunblaðinu í dag um málið og hann segir staðreyndina vera þá að fólk er farið að flytja í burtu úr bænum, enda búið að missa vinnuna. Hann gagnrýnir harðlega meint áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á að koma starfsemi PCC aftur af stað.
„Það vantar að menn komi hingað og kynni sér málin almennilega. Ég hef verið í þessu lengi og ég man varla eftir svo miklu áhugaleysi. Við höfum aldrei staðið frammi fyrir jafn alvarlegri stöðu og lokun PCC,“ segir Aðalsteinn í viðtalinu við Morgunblaðið.
Hann tekur þó fram að hann viti til þess að ráðamenn hafi átt í einhverjum samskiptum við sveitarstjórn Norðurþings en betur megi ef duga skal.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.