fbpx
Sunnudagur 28.september 2025
Fréttir

Fangi kvartar undan álagi við umönnun samfanga með Alzheimer – „Ef það eru vitleysingar að sinna þeim þá ræna þeir bara af þeim“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 28. september 2025 10:00

Fangelsið Hólmsheiði

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fangi á Hólmsheiði segir að þar séu nú vistaðir tveir fangar með Alzheimersjúkdóminn. Þurfi mennirnir mikla umönnun sem sé að miklu leyti í höndum samfanga þeirra og sé mjög krefjandi. Fangelsismálastjóri segir algengt að mjög veikir menn dveljist í fangelsum og ekki sé óþekkt að aðrir fangar veiti þeim ýmsa aðstoð. Telur hann þetta vera óæskilega stöðu en reynt er að vinna úr henni með sem bestum hætti.

Báðir mennirnir, sem eru Íslendingar á sjötugsaldri, afplána þunga dóma fyrir alvarleg afbrot. Báðir þurfa mikla aðstoð við daglegar þarfir. Samkvæmt fanga sem tekur þátt í þeirri umönnun var annar maðurinn vistaður tímabundið á heilbrigðisstofnun í sumar en sú ráðstöfun gekk ekki upp til lengdar og maðurinn er kominn aftur á Hólmsheiði. Ekki eru staðfestar heimildir fyrir orsökinni en fanginn segir að heilbrigðisstofnunin hafi ekki verið tilbúin að uppfylla kröfur Fangelsismálastofnunar um stíft eftirlit með manninum og að hann væri án síma.

Fanginn greinir DV frá því að einn fangi fái greiddar sex vinnustundir á viku í fangalaun fyrir að annast annan Alzheimer-veika manninn. Eru það um 2.500 krónur en tímakaup fangalauna er 415 krónur. Hins vegar sé svo mikil fyrirhöfn að sinna manninum að þeir séu þrír sem skipti því á milli sín (og skipti jafnframt laununum á milli sín).

„Það þarf þrjá menn til að sjá um einn Alzheimer-sjúkling, ef það er bara einn þá er hann alltaf að tuða í honum, þá pirrast hann og verður bara brjálaður. Þannig að við erum þrír í þessu. Einn sér um að þrífa herbergið, skipta um rúmföt og senda hann í sturtu. Einn sér um að elda og einn sér um að fara með þá í tölvutíma og svoleiðis.“

Aðspurður hvort ekki sé eitthvað jákvætt við þetta segir hann: „Þetta er jákvætt og neikvætt, það fer eftir því hvernig fangar eru að sinna þeim. Ef það eru vitleysingar að sinna þeim þá ræna þeir bara af þeim og það er enginn sem fylgist með því. Ef þeir eru góðhjartaðir þá hjálpa þeir þeim að elda, þrífa og annað.“

Staðhæfir hann að fangi sem settur var í að sinna öðrum Alzheimersjúklingnum í sumar hafi féflett hann. Af þeim ástæðum vandi fangaverðirnir nú betur valið þegar skipaðir eru fangar í þessi verkefni.

Sumir fangaverðir slái slöku við

Fanginn segir að sumir fangaverðir sinni veiku föngunum ekki nægilega vel. „Ef við myndum ekki gera þetta þá myndu fangaverðirnir bara láta þá mygla inni í herbergi. Annar Alzheimer-sjúklingurinn kom inn á ganginn aftur um daginn og fangaverðirnir eru enn ekki búnir að hjálpa honum að búa um rúmið sitt. Hafa ekkert hjálpað honum að þrífa fötin sín og láta hann stundum ekki vita að það sé kominn matur. Þeir nenna ekkert að sinna þeim.“

Segir hann að sumir fangaverðirnir séu samviskusamir hvað þetta varðar en aðrir ekki.

Hann segir að fangarnir sem sinna veiku föngunum séu í rauninni að gera eitthvað sem þeir ættu ekki að gera. Þegar hann er þá aftur spurður hvort þetta sé ekki gefandi líka, segir hann: „Já, en það eiga bara allir nóg með sig.“

Segir hann þetta ekki vera gott ástand og að hans mati ættu menn í þessu ástandi að vera á sjúkrastofnun en ekki í almennu fangelsi.

Besti kostur miðað við aðstæður?

DV sendi fyrirspurn um málið til Birgis Jónassonar fangelsismálastjóra. Spurt var um ástand fanganna tveggja, hve umfangsmikil vinna samfanga við umönnun þeirra væri, hvaða þjónustu sjúklingarnir fengju og hvort hann telji fangavinnu af þessu tagi vera æskilega eða óæskilega.

Birgir segist ekki geta svarað fyrir einstök mál en segir að öðru hverju dveljist í fangelsum landsins alvarlega veikir einstaklingar. Segir hann Fangelsismálastofnun leitast við að liðka fyrir um heilbrigðisþjónustu við slíka fanga en heilbrigðisstofnanir geti hins vegar ekki alltaf vistað veika fanga, stundum vegna plássleysis. Svar Birgis við fyrirspurn DV er eftirfarandi:

„Ég get ekki tjáð mig um einstök mál, sem endranær, og get því ekki staðfest hvort í fangelsum landsins, á Hólmsheiði eða annars staðar, séu tveir einstaklingar með þennan sjúkdóm sem þú nefnir sérstaklega. Aftur á móti get ég staðfest með almennum hætti að í fangelsum landsins dvelja nær alltaf einstaklingar sem glíma við veikindi, þar af öðru hverju einstaklingar með alvarleg veikindi.

Samkvæmt 29. gr. laga um fullnustu refsinga eiga fangar rétt á heilbrigðisþjónustu og skal hún vera sambærileg heilbrigðisþjónusta og almennt gildir, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu. Að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun sér það ráðuneyti sem fer með heilbrigðismál um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum. Þá kemur fram í 22. gr. sömu laga að Fangelsismálastofnun geti, að undangengnu sérfræðiáliti, leyft að fangi sé vistaður um stundarsakir eða allan refsitímann á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun. Fangi sem lagður er inn á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun telst taka út refsingu meðan hann dvelst þar.

Þegar um ræðir einstaklinga sem dvelja í fangelsum, hvort heldur í gæsluvarðhaldi eða í afplánun, sem annaðhvort bíða dóms eða hafa verið metnir sakhæfir, en glíma við veikindi og þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, reynir Fangelsismálastofnun eftir föngum að greiða fyrir öllu slíku, t.d. með því að annast einhvers konar milligöngu um vistun á heilbrigðisstofnun, sem er í samræmi við 22. gr. laga um fullnustu refsinga.

Grundvöllur þess eru heilsufarsupplýsingar um viðkomandi fanga. Það er ekki alltaf sem slíkt gengur enda ekki á vísan að róa með að heilbrigðisstofnanir geti í öllum tilvikum annast vistun á veikum einstaklingum sem eru fangar, t.d. vegna plássleysis. Við þær kringumstæður þarf því viðkomandi að dvelja í fangelsi og hafa þá aðrir fangar veitt aðstoð með ýmislegt sem nefna mætti jafningastuðning. Fyrir það hafa fangar fengið sérstaklega greitt með fangalaunum.     

Þetta er ekki æskilegt enda eru fangelsi landsins ekki heilbrigðisstofnanir og með takmarkað bolmagn til að sinna veikum einstaklingum. Aftur á móti kann þetta að vera besti kostur miðað við þær aðstæður sem uppi eru í það skiptið.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hafþór Júlíus skorar á Jake Paul í hnefaleikum – Paul hafi aðeins boxað við „litla menn“

Hafþór Júlíus skorar á Jake Paul í hnefaleikum – Paul hafi aðeins boxað við „litla menn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákæra tvær kólumbískar konur fyrir að auglýsa vændi á Akureyri

Ákæra tvær kólumbískar konur fyrir að auglýsa vændi á Akureyri
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úthúðar Guðmundi Inga og segir hann ekki ráða við verkefnið – „Gerum við ekki meiri kröfur en þetta?“

Úthúðar Guðmundi Inga og segir hann ekki ráða við verkefnið – „Gerum við ekki meiri kröfur en þetta?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vestmannaeyjabæ neitað um endurgreiðslu vegna skemmda á einu neysluvatnslögn bæjarins

Vestmannaeyjabæ neitað um endurgreiðslu vegna skemmda á einu neysluvatnslögn bæjarins