Árið 2024 urðu til tæpir 600 milljarðar af nýjum auð á Íslandi en ríkustu 10 prósent landsmanna tóku til sín stærra hlutfall af þessari fjárhæð en nokkru sinni áður. Þetta kemur fram í fréttabréfi Þórðar Snæs Júlíussonar, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar.
„Á síðasta ári urðu til næstum 600 nýir milljarðar króna í auð á Íslandi. Ríkustu tíu prósent landsmanna tóku til sín stærra hlutfall þessa nýja auðs en þau hafa gert frá árinu 2007, þegar upplásin bankabóla ýkti allt. Aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum sem hafa falið í sér aukna skattstyrki til best settu hópa samfélagsins, húsnæðisstuðning sem aðallega hefur verið beint til þeirra tekjuhæstu og ívilnað fjármagnseigendum með ýmsum hætti hefur aukið á þessa lífskjaragliðnun.“
Þórður rekur að stærsta hluta þessara tæplega 600 milljarða megi annars vegar rekja til hærri fjármagnstekna, sem felast í vöxtum, arði, söluhagnaði hlutabréfa og leigutekna, en hins vegar til bólu á húsnæðismarkaði. Húsnæðisverð hafi hækkað meira hér á landi en í nokkru öðru aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Þar með hafi fasteignaeigendur á Íslandi, sem eru um 70 prósent þjóðarinnar, aukið auð sinn gríðarlega á meðan aðrir sátu eftir. Lífsgæði hafi ráðist fyrst og síðast af stöðu fólks á húsnæðismarkaði.
„Þessi þróun gerðist ekki í tómarúmi. Hún var afleiðing pólitískra ákvarðana. Aðgerðir sem stjórnvöld undir stjórn ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar gripu til vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins spiluðu stærsta rullu í þróuninni. Peningar voru gerðir ódýrari og tækifæri þeirra sem áttu fjármagn til að ávaxta, til dæmis í hlutabréfum og fasteignum, til að hagnast gríðarlega urðu fjölmörg. Á sama tíma jukust skattstyrkir til best settu hópa samfélagsins. Aðstæður voru skapaðar til að pumpa verulega upp eignaverð.“
Um áramótin hafi ríkustu 10 prósent landsmanna átt rúmlega helming alls auðs á Íslandi. Auður þessa hóps hafi aukist um 2.290 milljarða í stórnartíð síðustu ríkisstjórnar og með því næstum tvöfaldast. Á sama tíma hafi eigið fé þess helmings landsmanna sem á minnst aukist um 143 milljarða. „Sú upphæð er 42 prósent af auðsaukningu efstu tíundarinnar á síðasta ári einu saman.“
Þórður Snær rekur að þensla hafi aukist mikið í tíð síðustu ríkisstjórnar sem kalli á aðhald. Seðlabankinn hafi beitt sínum tólum til að reyna að ná tökum á verðbólgu og þessi tól bitni einkum á þeim sem eiga lítið eða ekkert, enda hækka vextir á lánum á meðan þeir sem eiga pening fá hærri vexti fyrir innistæður sínar.
„Síðustu ár hafa stjórnvöld gripið til alls kyns aðgerða sem hafa fóðrað betur setta hópa samfélagsins, en gert stöðu hinna verri. Þar má nefna húsnæðisstuðning við ríkustu hópa landsins, ófjármagnaðar skattalækkanir og skattastyrki sem beinast fyrst og síðast að sömu hópum, þensluhvetjandi aðgerða í efnahagsmálum sem hafa hleypt upp verðbólgu og vöxtum og eftirspurnarhvetjandi aðgerða á húsnæðismarkaði sem hafa hækkað húsnæðisverð langt umfram launa- og verðlagsþróun.“
Þessi staða kalli á viðbrögð. Nú þegar hafi ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins dregið úr skattastyrkjum og boðað að húsnæðisstuðningur fari héðan af til þeirra sem þurfa á honum að halda, svo dæmi séu tekin. Aðgerðir eigi það margar sameiginlegt að þær miði að því að íbúðir verði ekki lengur fjárfestingaeignir fyrir best settu hópa samfélagsins. Þetta séu ekki alltaf vinsælar aðgerðir enda vilji enginn missa spón úr sínum aski. Ríkissjóði eigi ekki að vera beitt til að stuðla að lífskjaragliðnun.
Nánar má lesa um málið í ítarlegri grein Þórðar Snæs.