Höskuldur Kári Schram, fréttamaður, segir Veitur hafa fallið á prófinu í gær þegar rafmagnslaust varð á stóru svæði á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið hafi ekki staðið sig nægilega vel að veita fólki upplýsingar um ástandið.
„Víðtækt rafmagnsleysi í dag. Í Vesturbænum varði þetta í nærri tvær klukkustundir,“ sagði Höskuldur Kári í færslu á samfélagsmiðlum í gær.
Rafmagnslaust varð víða á höfuðborgarsvæðinu eftir klukkan 16:00 í gær, á Seltjarnarnesi, í Vesturbæ Reykjavíkur, Kópavogi og Garðabæ. Hafði þetta meðal annars áhrif á verslanir sem þurftu að vísa viðskiptavinum sínum út og umferðarljós voru víða úti.
Höskuldur Kári sagðist hafa tekið eftir álagi á öllu 4G og 5G netsambandi og erfitt hafi verið að komast inn á fréttasíður. RÚV hafi staðið sig vel í að miðla upplýsingum um rafmagnsleysið.
„Þetta hafði hvað lengst áhrif á sirka 30 þúsund manns. Sem er sirka 8 prósent þjóðarinnar,“ sagði hann. „Áhugavert að Veitur var ekki að miðla upplýsingum og á heimasíðu fyrirtækisins var ekkert að sjá (fyrir þá sem komust inn á heimasíðuna). Það kom seint og síðar meir.“
Þetta sé ekki lítilvæglegt mál. Það er bæði rafmagnsleysið og upplýsingaskorturinn.
„Það er auðvitað háalvarlegt að rafmagn skuli detta út í svona langan tíma á svona þéttbýlu svæði. En aðalatriðið er að veita fólki upplýsingar,“ sagði hann að lokum. „Veitur féll á þeirri prófraun í dag . Svo erum við auðvitað orðin alltof háð rafmagni.“