Einbýlishús á Akureyri verður boðið upp vegna þess að eigendur hafa ekki fjarlægt bílhræ af lóðinni. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra furðar sig að málið sé komið á þennan stað en hræin hafa verið á lóðinni um árabil og dagsektir lagðar á.
Húsið stendur við Hamragerði 15 og hefur verið til umfjöllunar fjölmiðla, einkum hjá staðarmiðlum á Akureyri. Um er að ræða gamalt einbýlishús, byggt á fjórða áratug síðustu aldar, með bílskúr og hænsnakofa. Stærð þess er 222 fermetrar og fasteignamatið er 64,3 milljónir króna.
Eins og sést á ljósmyndum standa tugir bílhræja á lóðinni. Á bílaplani og víða annars staðar, meðal annars á grasfleti.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur ítrekað fjallað um húsið. Fyrir um einu og hálfu ári, það er þann 7. febrúar árið 2024 voru lagðar dagsektir á eigendur hússins vegna umgengninnar. En þá hafði eigandi ekki brugðist við ítrekuðum fyrirmælum nefndarinnar og bætt um umgengni á lóðinni. Voru dagsektirnar ákveðnar 20 þúsund krónur á dag frá og með 26. febrúar á því ári.
Í júní í fyrra var greint frá því á miðlinum Akureyri.net að bílum hefði fækkað eitthvað á lóðinni við Hamragerði 15. En engu að síður voru mörg hræ þarna enn þá. Í júní á þessu ári var greint frá því í Vikublaðinu að dagsektirnar hefðu ekki verið greiddar og væru komnar í innheimtu. Ekki nóg með það þá hafði fjárnám verið gert í eigninni og nauðungarsala auglýst. Vert er að taka fram að dagsektir falla ekki niður þó að brugðist sé við fyrirmælum um umgengni.
Hefur málið verið tekið upp á hverjum einasta fundi Heilbrigðisnefndar síðan dagsektir voru lagðar á en á síðasta fundi, þann 17. september var greint frá því að dregið hefði til tíðinda. Það er að aukin harka væri komin í innheimtuaðgerðir og nú væri svo komið að húsið verði boðið upp.
„Innheimtuaðgerðir vegna ógreiddra dagsekta halda áfram. Upphaf uppboðs hefur farið fram og framhaldssala er boðuð á næstu dögum,“ segir í fundargerðinni. „Heilbrigðisnefnd undrast áframhaldandi aðgerðar- og afskiptaleysi lóðarhafa, nú þegar aukin harka er komin í innheimtuaðgerðir. Að mati nefndarinnar hefði verið unnt að bregðast við kröfu um tiltekt á lóðinni með lítilli fyrirhöfn og kostnaði innan þess rúma frests sem lóðarhafa var veittur til úrbóta og andmæla áður en ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða var tekin.“