Óttast er að Rússar hafi í morgun gert svokallaða GPS-árás á spænska flugvél þar sem varnarmálaráðherra Spánar, Margarita Robles, var um borð. Árásin á að hafa átt sér stað þegar flugvélin flaug yfir rússneska sjálfstjórnarhéraðið Kaliningrad á leið sinni tol Litháen þar sem ráðherrann ætlaði að funda með kollega sínum, Dovile Sakaliene, varnarmálaráðherra Litháen.
Árásin, sem fól í sér að samband flugvélarinnar við GPS-gervihnött var truflað og því varð leiðarkerfi vélarinnar óvirkt, varð þess valdandi að flugmenn vélarinnar lentu í vandræðum og þurftu að lenda vélinni handvirkt.
Atvikið minnir á sambærilega árás sem flugvél Ursulu von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, varð fyrir á leið sinni til Búlgaríu í byrjun mánaðarins. GPS-leiðarkerfi flugvélarinnar var gert óvirkt í árásinni og þurftu flugmenn vélarinnar að nota hefðbundið landakort til þess að lenda vélinni í Plovdiv í Búlgaríu.
Árásin í morgun á sér stað á viðkvæmum tíma en mikil spenna er milli NATO-ríkja og Rússa en þeir síðarnefndu hafa ítrekað ögrað ríkjum varnarbandalagsins undanfarna daga. Skemmst er að minnast þess að rússneskir drónar rufu lofthelgi Póllands á dögunum og nokkru síðar rufu þrjár rússneskar orrustuþotur lofthelgi Eistlands. Þá þurfti að loka Kastrup-flugvelli við Kaupmannahöfn í nokkrar klukkustundir á mánudagskvöld og sömuleiðis Gardemoen-flugvellinum í Osló vegna drónaflugs þar sem Rússar liggja sterklega undir grun.