Málið vakti mikla athygli og voru dönsk félagsmálayfirvöld harðlega gagnrýnd eftir að stúlkan var tekin á grundvelli umdeilds „foreldrahæfisprófs“ þrátt fyrir að ný lög banni notkun þeirra á fólki sem eru af grænlenskum uppruna.
Ivana er fædd og uppalin í Nuuk af grænlenskum foreldrum og leikmaður grænlenska handboltalandsliðsins. Dóttir hennar var tekin í fóstur af sveitarfélaginu aðeins um einni klukkustund eftir að hún fæddist. Ákvörðun sveitarfélagsins var kærð og hefur úrskurður nú fallið ungu móðurinni í hag, að því er fram kemur í frétt New York Times.
Í umfjöllun DV um málið þann 24. ágúst síðastliðinn kom fram að svokölluð „foreldrahæfispróf“ (FKU) hafi sætt mikilli gagnrýni lengi, sér í lagi gagnvart fólki af grænlenskum uppruna. Voru þau bönnuð með lögum sem tóku gildi í maí 2025. Þrátt fyrir það var Brønlund látin undirgangast slíkt próf en sveitarfélagið hélt því fram að ástæðan væri sú að ferlið hófst áður en lögin tóku gildi.
Sjá einnig: Mikil reiði eftir að dönsk yfirvöld tóku nýfædda dóttur af grænlenskri móður á grundvelli umdeilds prófs
Sveitarfélagið fullyrti jafnframt að Ivana væri „ekki nógu grænlensk“ til að lögin giltu um hana, þrátt fyrir að hún eigi grænlenska foreldra og sé bæði fædd og uppalin í Grænlandi.
Ivana birti stutta færslu á Instagram síðu-sinni í gær þar sem hún fagnaði niðurstöðunni og sagði: „Hjarta mitt er heilt á ný.“
Sem fyrr segir vakti málið mikla athygli og reiði, sér í lagi á Grænlandi, þar sem mótmæli fóru meðal annars fram í ágústmánuði. Í frétt New York Times er rætt við Najannguaq Hegelund, varaformann Sila 360, samtaka um réttindi frumbyggja, sem segir ótrúlegt að mál Ivönu hafi farið svona langt.
„Við erum auðvitað ánægð fyrir hönd Ivönu og fjölskyldu hennar, en það eru mörg önnur sambærileg mál í kerfinu.“
Í frétt New York Times kemur fram að Ivana hafi verið látin undirgangast stíft forsjármatsferli, sem innihélt meðal annars viðtöl við sálfræðinga og fundi með félagsráðgjöfum. Þá var hún látin gangast undir greindarpróf sem mældu hæfni hennar til að raða formum og leysa stærðfræðidæmi – eitthvað sem hún sagðist aldrei hafa staðið sig vel í.
Yfirvöld úrskurðuðu þá að hún væri „ekki fær um að tryggja velferð og þroska barns síns“ og að hún hefði „mikla þörf fyrir víðtækan geðheilbrigðis- og félagslegan stuðning,“ sem Ivana og fjölskylda hennar taldi ósanngjarna niðurstöðu.
Bent er á það í umfjöllun New York Times að mistök yfirvalda hafi verið fólgin í því að nota stöðluð próf á hana. Það er eitthvað sem Grænlendingar í Danmörku hafa árum saman kvartað yfir og hafa þeir haldið því fram að prófin gefi mjög skakka mynd – enda sýni rannsóknir að Grænlendingum almennt gengur mjög illa í þessum stöðluðu prófum.
Samkvæmt nýlegri rannsókn eru grænlensk börn sem fæðast í Danmörku fimm sinnum líklegri til að vera tekin frá foreldrum sínum en önnur börn í Danmörku.