Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins sendi fréttastofu RÚV ályktun þar sem Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti flokksins í borgarstjórn og forseti borgarstjórnar, er hvött til að segja sig úr flokknum.
„Ályktunin er viðbragð við orðum Sönnu Magdalenu í viðtali við fréttastofu í gær, þar sem hún opnaði á framboð fyrir aðra flokka en Sósíalistaflokkinn,“ segir í frétt RÚV um málið.
Formaður framkvæmdstjórnar flokksins, eftir hallarbyltingu í flokknum í vor, er Sæþór Benjamín Randalsson, Hann segir að Sanna hafi grafið undan lýðræðislegri niðurstöðu flokksmanna í nokkurn tíma en nú sé mælirinn fullur.
Í yfirlýsingunni lýsir framkvæmdstjórnin furðu sinni á þeim ummælum Sönnu að ný stjórn flokksins hafi ekki staðið heilshugar að baki borgarstjórnarflokknum.
Umræður eru um málið í Facebook-hópi tengdum Sósíalistum, Rauða þræðinum. Þar kemur fram að Sönnu hefur ekki verið birt þessi áskorun framkvæmdastjórnarinnar. Hún segir í ummælum undir færslu þar sem frétt RÚV um málið er deilt:
„Ég hef allavegana ekki fengið tölvupóst, símtal, né sms með þessari áskorun framkvæmdastjórnar.“