„Ég er hlynntur því að fólk geri nákvæmlega sem það vill gera. Og ég er á því að fólk ætti að geta keypt sér eiturlyf, bara kókaín, heróín og hvað sem er, bara út í sérverslun fyrir það. Ég er ekki að segja að það eigi að vera aðgengilegt í matvöruverslunum eins og Melabúðinni. Ég held að afglæpavæðing og lögleiðing neysluskammta myndi taka okkur rosalega langt. Bæði í forvörnum, af því þá getum við nálgast hópinn meira sem er að nota, minnkar fordóma,“
segir tónlistarmaðurinn Gauti Þeyr Másson, Emmsjé Gauti, sem er nýjasti gestur í hlaðvarpinu Fullorðins á Brotkast.
Segir hann áfengi fíkniefni og að hans mati eigi áfengi og börn bara ekki samleið. Honum finnst í lagi að fólk fái sér áfengi, til dæmis til að fagna áramótum eða vínglas með matnum.
„Mér finnst til dæmis galin pæling þegar fólk fer upp í sumarbústað með börnum sínum og allir að hrynja í það, og börnin eru inni í herbergi sofandi. Mér finnst það mjög óábyrgt. Mér finnst mjög óábyrgt að setja upp þannig aðstæður að það sé enginn í þeirri aðstöðu að vera fullkomlega heill ef eitthvað kemur upp á.“
Segist Emmsjé Gauti ekki vera með skoðun sína fullmótaða en þó vera frekar á því að ekki eigi að kynna fólk fyrir áfengi.
„Ég held að áfengi muni alltaf fylgja okkur að einhverju leyti og sérstaklega á meðan það er svona löglega fíkniefnið. Ég er samt líka alveg hlynntur því að það sé opnara samtal milli foreldra, að þegar krakkar, ef krakkar ætla að fara að gera hluti, hvort sem það er áfengi eða fíkniefni eða eitthvað svona sem er bannað, að það sé betra að vera í trausti og traustum samskiptum við forráðamennina sína í staðinn fyrir að þú sért að prófa það í aðstæðum sem geta verið lífshættulegar eða í aðstæðum sem geta leitt af sér þyngri neyslu.“
Segist Emmsjé Gauti vera hlynntur afglæpavæðingu neysluskammta.
Aðspurður um hvernig hann sjálfur hafi verið sem unglingur segist Emmsjé Gauti hafa verið uppátækjasamur. Hann hafi fljótt hætt í skóla, farið tvö ár eða tvær annir í menntaskóla, hann muni það ekki einu sinni og flutt að heiman sautján ára að verða 18 ára.
„Allt of ungt. Og fór bara svona dálítið að gera músík og vinna mikið og djamma mikið. Miklu meira en ég átti að gera sem unglingur. Ég held ég hafi bara drifið mig ógeðslega mikið að drífa mig að fullorðnast. Ég hef alltaf verið dálítið sjálfstæður. Byrjaði snemma að vinna. Ég hætti í unglingavinnunni í níunda bekk og fór að vinna í Smass og og síðan fór ég að vinna í alls konar vinnum sem ég var annaðhvort rekinn úr eða hætti í, svona frá fimmtán til tvítugs. Síðan fór ég að vinna á börum og var að vinna á börum lengi. Alveg þangað til ég bara hætti að vinna, eða hætti að vinna fyrir að gera það sem ég er að gera í dag, 2014.“
Hann segist hafa byrjað allt of snemma að drekka, prófað 13 ára og drukkið mikið á menntaskólaárunum.
„Það var bara dálítið normið. Ég er búinn að vera edrú í sex ár og eða 2222 daga í dag. Svolítið nett tala. Ef ég gæti farið aftur í tímann, ég er ekkert viss um að ég myndi fara aftur í tímann og eitthvað endurskrifa neitt af því að allt leiðir upp að einhverju. Og ég er bara stoltur af því hver ég er í dag og ég hef breyst mikið og ég held að maður þurfi að taka út alls konar tímabil til þess að bara verða að manneskjunni sem maður er, gera mistök.“
Emmsjé Gauti segir neyslumynstrið þyngra í dag en á hans unglingsárum. Hann segist hafa reykt gras, en þó aðallega drukkið. Hann segist hafa prófað harðari efni en þó ekki alveg til í að tala um það.
„Ég veit ekkert hvort ég hefði komið jafn vel út úr þessu ef þetta væri sagan mín í dag. Ég tók rispur sem sögðu mér seinna meir að ég þyrfti bara að girða mig. Ég gat ekki hætt að drekka lengur. Ég gat ekki hætt að drekka það sjálfur. Ég þurfti alveg að fá hjálp.“