Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir stórfelld fíkniefnabrot vegna innflutnings á tæplega 200 grömmum af metamfetamín kristöllum, í kjölfar þess að tollverðir fundu efnin í myndaramma í póstsendingu erlendis frá. Efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi en úr þeim má hafa á bilinu 1.500 til 3.000 neysluskammta.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Annar mannanna er sagður hafa flutt inn efnin og skráð hinn manninn sem móttakanda póstsendingarinnar sem innihélt fíkniefnin. Fékk hann hinn manninn til að sækja póstsendinguna. Afhenti hann honum handskrifaðan miða með tilvísunarnúmeri sendingarinnar, ásamt 5000 kr. fyrir leigubíl, og bað hann um að sækja pakkann á pósthús og hitta sig í kjölfarið.
Síðar sama morgun fór síðarnefndi maðurinn á pósthúsið með leigubíl og fékk pakkann afhentan. Mennirnir hittust á bekk skammt frá stuttu síðar og sendingin skipti um hendur. Í kjölfarið voru mennirnir handteknir.
Sá sem flutti efnin inn til landsins er einnig ákærður fyrir að hafa haft rúmt gramm af kókaíni í fórum sínum.
Þess skal getið að málið er komið til ára sinna. Meint brot voru framin í maí árið 2021 en ákæra héraðssaksóknara í málinu var gefin út 14. ágúst á þessu ári.