„Þetta er mjög alvarleg þróun. Án bankareiknings er ekki hægt að fá greidd laun, greiða húsaleigu, fá örorkubætur eða aðra opinbera aðstoð. Bankareikningur er því ekki lúxus eða forréttindi heldur nauðsynlegur grundvöllur fyrir þátttöku í samfélagi og efnahagslífi,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, um mál víetnamska athafnamannsins Quang Le, sem hefur stefnt Landsbankanum fyrir að loka bankareikningi hans og meina honum um viðskipti við bankann.
Quang Le hefur verið undir lögreglurannsókn frá því í mars 2024, grunaður um mansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi. Hafa eignir hans verið frystar. Ekki sér fyrir endanum á rannsókninni.
Mbl.is greindi stefnu Qang Le á hendur bankanum í gær. Segir þar að Landsbankinn hafi sagt upp viðskiptum við hann þann 13. mars 2024 í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um lögreglurannsóknina. Vísar bankinn til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti. Einnig sendi Landsbankinn frá sér tilkynningu í innlend og erlend upplýsingakerfi fjármálastofnana um að Quang Le væri grunaður um grunsamleg viðskipti.
Quang Le segist hafa leitað til allra viðskiptabanka á Íslandi í því skyni að stofna til viðskipta en þeir hafi allir hafnað honum. Segir hann í stefnu sinni að það sé réttur en ekki forréttindi að hafa aðgang að bankareikningi:
„Í nútímaheimi er bankareikningur ekki lengur bara fjármálaþjónusta; hann er grundvallarforsenda fyrir venjulegu og löglegu lífi borgaranna í samfélaginu. Án bankareiknings er ekki hægt að fá greidd laun, greiða leigu eða fá aðgang að grunnþjónustu hins opinbera. Bankareikningur er lágmarksþröskuldur aðgangs að efnahagslífi og borgaralegu samfélagi.“
Guðmundur Ingi segir í pistli á Facebook-síðu sinni að málið endurspegli vanda sem hafi farið hratt vaxandi hér á landi undanfarin ár. Hann bendir á að án bankareiknings sé ekki hægt að fá greidd laun, greiða húsaleigu, eða fá opinbera aðstoð. Bankareikningur sé nauðsynlegur til þess að geta tekið þátt í samfélaginu. Hann segir þessa þróun vera mjög alvarlega:
„Í stað þess að vera fjármálastofnanir í þjónustu almennings hafa bankarnir í auknum mæli tekið að sér hlutverk eftirlitsaðila. Þeir krefjast persónulegra gagna og meta sjálfir hvort viðskipti standist áreiðanleikakannanir. Þó lög um aðgerðir gegn peningaþvætti leggi þeim skyldur á herðar, er ljóst að núverandi framkvæmd er farin að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir saklausa einstaklinga sem sitja eftir á jaðrinum, án aðgangs að bankaviðskiptum og þar með án möguleika á eðlilegu lífi.“
Segir Guðmundur Ingi að þegar gengið sé of langt í því að loka fólk frá bankaviðskiptum þá vaxi svart hagkrefi. Það geti skaðað traust almennings á fjármálakerfi og stjórnsýslu. Hann segir ennfremur:
„Því þarf að setja skýra varnagla í lög sem tryggir að bankar geti ekki sagt fólki upp viðskiptum án skýrrar, rökstuddrar og endurskoðanlegrar ákvörðunar.
Það á ekki að vera einkafyrirtækjum í hagnaðarskyni að ákveða hverjir fá að taka þátt í samfélaginu og hverjir ekki. Slík völd eiga að vera hjá stjórnvöldum og lögreglu, ekki í höndum bankanna sjálfra. Og við erum stundum að tala um banka sem myndu örugglega ekki sjálfir uppfylla sínar eigin áræðanleikakannanir.“
Segir hann að það þjóni engum nema þeim sem græða á skuggahagkerfinu að fólki sé með þessum hætti ýtt þangað. Stór hópur fólks standi algjörlega utan efnahags- og velferðarkerfisins.