Mikið hefur verið rætt og ritað á samfélagsmiðlum og í fréttum um gjaldskyldu, sem virðist orðin regla frekar en undantekning á ferðamannastöðum á Íslandi.
Einhverjum finnst innheimta sem þessi fyrir bílastæði og þjónustu eins og salerni ef hún er í boði glæpastarfsemi og vilja ekki greiða.
Einn þeirra er karlmaður sem fundið hefur lausn til að komast undan því að greiða. Lausnin er ekki dýr; málningarlímband.
„Stöðvum peningaplokkið. Nú þurfum við sem ferðumst um fallega landið okkar að fara að standa saman í að brjóta á bak aftur þessa gráðugu aðila sem reyna að féfletta okkur hvar sem við leggjum bílunum okkar.
Nú í sumar hef ég skellt málningarlímbandi yfir númeraplöturnar rétt á meðan ég ek fram hjá myndavélunum.
Vissulega á „gráu svæði“ lagalega séð, en á meðan gjaldheimtan er ekki lögleg, þá höfum við fullan rétt á að bregðast við,“
segir Árni Tryggvason, ljósmyndari og fyrrum leiðsögumaður og birtir myndir athæfi sínu til staðfestingar í Facebook-hópnum Hið raunverulega bakland ferðaþjónustunnar.
Segist hann setja límbandið á rétt áður en hann keyrir inn á viðkomandi svæði, og það taki um mínútu að setja límbandið á, hann taki það svo af þegar hann er kominn inn á viðkomandi bílastæði, og setji síðan límbandið aftur á þegar hann ekur út af bílastæðinu.
„Munið svo bara eftir að taka þetta af um leið og komið er fram hjá myndavélunum og þið farið út í almenna umferð. Ég hef ekki enn fengið kröfu á heimabankann minn fyrir að fara inn á þessa „lögleysubletti.““
Segir Árni að víða sé gjaldheimta fyrir bílastæði nánast falin og nefnir eitt dæmi:
„Til dæmis kom ég að Brúarhlöðum um daginn en þar er ekkert sem tilkynnir þetta áður en ekið er inn á svæðið. Bara skilti sem blasir við þegar ekið er út af því. Höfum í huga að þarna er bílastæði sem kostað var af Vegagerðinni en ekki af þessum fégráðugu aðilum sem hugsanlega eiga landið undir því. Engin þjónusta er þarna en hugsanlega mætti réttlæta svona innheimtu ef svæðið væri vaktað og gestir hefðu aðgang að salernum, staðarhaldari hefði staðið allan straum af kostnaði við vegagerð og bílastæði og fleira.
En svo er okkur líka fullkomlega heimilt að leggja utan þessara stæða (eins og sést á einni myndinni).“
Í athugasemdum sýnist sitt hverjum um aðferð Árna. Einn segir hann vera að viðurkenna glæp opinberlega og spyr hvað lögreglan ætli að gera. Annar svarar að þarna sé Árni að verjast glæpum. Árni sjálfur segir lögregluna ekkert geta gert nema menn séu staðnir að verki.
„Ég gæti þess vegna hafa teipað yfir númerið á bílnum mínum í stæðinu heima þegar ég tók þessa mynd. Svo má minna á að þessir aðilar munu ekki fara í innheimtuaðgerðir vegna ógreiddra krafna. Þeir vita að með því að dómur falli þeim í óhag, þá er þessu sjálfhætt.Þessir aðilar munu ekki fara í innheimtuaðgerðir vegna ógreiddra krafna. Þeir vita að með því að dómur falli þeim í óhag, þá er þessu sjálfhætt.”
Kona spyr Árna hvort hann starfi ekki í ferðaþjónustu: „Ert þú ekki einmitt að selja upplifun á landinu en vilt ekki borga réttum og löglegum eigendum af tilteknum svæðum?” Svarar hann þeirri spurningu: „Hvers vegna þarf að borga einhverjum fyrir að sjá sem þeir ekki sköpuðu sjálfir? Ég sé bara ekki nokkra ástæðu til þess að greiða landeiganda við Brúarhlöð nokkuð fyrir að ganga þarna um svæði sem ekki er ræktarland, engin aðstaða og hann hefur ekki kostað neinu til að gera það aðgengilegt.”
Steinunn Lilja Svavarsdóttir, fyrrum landeigandi að Brúarhlöðum spyr Árna hvort honum finnist að landeigendur eigi að bera allan kostnað sjálfir.
„Sem fyrrum landeigandi að Brúarhlöðum þá finnst mér þetta aðeins ósanngjörn pæling.
Hvernig á að búa til aðstöðuna ef ekki fyrir pening frá þeim sem nota hana?
Við erum sauðfjárbændur sem seldum frá okkur landið við Brúarhlöð fyrir 5 àrum.
Við réðum ekki á neinn hátt við umferðina þarna, fé og hrossum var reglulega hleypt út úr girðingum þegar fólk óð um allt, fólk var sofandi þarna nánast allar nætur yfir sumartímann og mannaskiturinn greint alstaðar.
Fólk kveikti varðelda þar sem þeim sýndist og gekk almennt hræðilega um.
Við reyndum á tímabili að hafa ruslatunnu sem við vorum þá í ólaunaðri vinnu við að tæma.
Bílastæðið vissulega lagt af vegagerðinni en sem hluti af greiðslu fyrir mölina sem þeim var selt héðan, sem og malbikið heim að Haukholtum.
Finnst þér semsagt að þeir sem eru svo ,,heppnir” að eiga falleg landsvæði sem fólk langar að skoða eigi bara að bera allan kostnað við að byggja upp aðstöðu?
Árni svarar Steinunni og segir:
„Nei, því hef ég hvergi haldið fram. Að sjálfsögðu á Framkvæmdasjóður ferðamannastaða að vera bakhjarl þeirra aðila sem þurfa að vernda fallega og viðkvæma staði. En þessi gjaldheimta eins og þarna er í dag er galin.
En er eh. að því að fólk hafi sofið þarna?
Á hinum Norðurlöndunum er rétturinn til dvalar í nátturunni mun frjálsari en hér. Í Noregi máttu t.d. leggjast til svefns 150m frá næstu híbýlum manna ( 2 tjöld í tvær nætur) án þess að þurfa að biðjast leyfis og þar í landi er almenn sátt um það fyrirkomulag.
Mín vegna mætti víkka þetta upp í 300m hér, en ég fæ ekki skilið að það haldi fyrir þér vöku ef einhver leggst til svefns úr sjónmáli frá þeim stað þar sem þú býrð.
Svo ferðu með ósannindi þegar þú segir að „mannaskítur hafi verið allstaðar,“ þó svo að eflaust hafi mátt rekast á slíkt. Hvers vegna er þá ekki búið að reisa þarna salernisaðstöðu fyrst gjaldheimta er hafin. Hættir fólk að skíta?
Svo þessi rök þín að það þurfi að safna fyrst til að hægt sé að fara í úrbætur?
Í hvaða starfsgreinum öðrum tíðkast slíkt? Getur einhver sem ætlar að stofna veitingastað féflett alla sem eiga leið hjá svo hann geti innréttað staðinn og hafið rekstur? Landeigendur eiga því að gera úrbætur á svæðinu áður en þeir hefja gjaldheimtu. Ef þeir sjá fram á að gjaldheimtan muni ekki duga fyrir úrbótum, þá er framkvæmdin óarðbær og því óþörf. Því miður hefur þetta viðgengist of víða en á ekki að vera til eftirbreytni. Hafið í huga að ykkar sveitarfélag hagnast gríðarlega á ferðaþjónustunni. Því á sveitarfélagið að sinna sorpmálum og stígagerð á svona stöðum.”