Róbert Guðfinnsson, athafnamaður og Siglfirðingur, hefur bætt í gagnrýni sína á lögregluaðgerðir á Siglufirði á fimmtudagskvöldið. Lögreglan á Norðurlandi eystra naut þar aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og voru fimm erlendir verkamenn handteknir í aðgerðunum.
Einn maður fannst slasaður í aðdraganda aðgerðanna. Var hann fluttur á sjúkrahús. Skoðunum Róberts á atvikum hefur nokkuð verið mótmælt og bent á að hinn slagaði hafi verið alblóðugur og með skurði víða um líkamann, að því er vitni sem kom fyrst að hinum slasaða greinir frá.
Róbert gefur þó ekkert eftir og segir viðbrögðin minna á Netflix-seríu. Ef vakthafandi lögreglumaður á Siglufirði hefði yfirfarið lýsingu vitnis og rætt í framhaldinu við heilsugæslulækni hefði málið líklega verið flokkað sem óhapp. Þess í stað hefði verið búin til ýkt atburðarás í Netflix-seríu stíl.
Birti Róbert eftirfarandi pistil um málið á Facebook-síðu sinni:
„Þegar litli bærinn tapar sálinni:
Fyrir tveimur dögum varð atvik í mínu samfélagi sem setur spurningarmerki við hvernig við skipuleggjum þjónustu og öryggi í litlum bæjum.
Drukkinn iðnaðarmaður af erlendu bergi brotinn fannst blóðugur á aðalgötu bæjarins. Hann var fluttur á heilsugæslu á Siglufirði, þar sem sár voru saumuð og hlúð að honum. Þrátt fyrir það var hann, samkvæmt miðstýrðum ferlum, sendur áfram á Akureyri þar sem greiningin var staðfest – og hann útskrifaður.
Á sama tíma fór af stað stór aðgerð: Fjöldi lögreglubíla, sérsveitarmenn. Vinnufélagar mannsins rifnir úr rúmum, handjárnaðir og fluttir til Akureyrar. Eftir yfirheyrslur og ítarlega skoðun kom í ljós að maðurinn hafði einfaldlega dottið á fylleríi. Átján tímum síðar voru þeir allir komnir aftur til vinnu.
Staðbundin löggæsla:
Lögreglustöðin á Siglufirði er í innan við hundrað metra fjarlægð frá vettvangi. Þarna hefði lögreglumaður á vakt átt að geta yfirfarið lýsingu vitnis og rætt í framhaldinu við heilsugæslulækni. Líklega hefði málið þá verið flokkað strax sem óhappaslys.
Í staðinn var atvikið stækkað upp í Netflix „krimma“ aðgerð, sem að öllum líkindum kostaði skattgreiðendur álíka mikið og árslaun tveggja lögreglumanna.
Umburðarlyndi og reynsla úr fortíð:
Sjálfur man ég eftir fyrstu ferðum mínum sem togarasjómaður til breskra hafnarborga. Þegar íslenskir sjómenn drukku of mikið gat komið til slagsmála eða þeir einfaldlega duttu. Morguninn eftir vöknuðu menn upp með timburmenn og stundum með glóðurauga – en heimamenn sýndu okkur alltaf umburðarlyndi. Þeir vissu að við færðum þeim hráefni og atvinnu.
Nýr veruleiki á Íslandi:
Í dag starfa tugþúsundir innflytjenda í byggingarstarfsemi, þjónustu og fiskiðnaði á Íslandi. Við þurfum á þessum höndum að halda ef við viljum viðhalda lífskjörum – því við erum einfaldlega of fá.
Það er því brýnt að við látum ekki erlenda glæpaþætti móta viðbrögð okkar. Í stað þess þurfum við að byggja á staðbundinni skynsemi, raunsæi og umburðarlyndi.“