Hraðbanki, sem stolið var úr útibúi Íslandsbanka við Þverholt í Mosfellsbæ þann 19. ágúst síðastliðinn, er kominn í leitirnar. Frá þessu greinir Mbl.is en í fréttinni, sem byggð er á svari bankans við fyrirspurn blaðsins, kemur fram að lögregla hafi fundið hraðbankann síðdegis í gær og endurheimt alla fjármunina sem í honum voru, alls 22 milljónir króna.
Óhætt er að fullyrða að ránið hafi vakið mikla athygli en þjófarnir notuðu stolna gröfu til þess að brjóta sér leið að hraðabankanum og hafa hann á brott.
Einn aðili situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins, maður á fimmtugsaldri. Þá rann gæsluvarðhaldsúrskurður yfir konu á fertugsaldri út í dag en í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að ekki hafi verið krafist áframhaldandi varðhalds yfir henni.