fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fréttir

Vandræðahús í Vestmannaeyjum rifið – „Nánast óviðgerðarhæft eftir margra ára vanhirðu“

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 23. ágúst 2025 10:00

Vesturvegur 17B, kallaður Litla-Hraun verður rifinn. Húsið er ónýtt fyrir utan þakið sem var gert upp 2013. Mynd: Skjáskot/Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja í liðinni viku að veita heimild til að rífa hús að Vesturvegi 17B í bænum. Húsið, sem ber nafnið Litla-Hraun, var byggt árið 1911 og er þar með friðað vegna aldurs. Það hefur verið í afar slæmu ásigkomulagi í langan tíma og vandræði hafa margoft skapast vegna ástands hússins og það hefur verið sett á söluskrá með reglulegu millibili undanfarin ár. Minjastofnun hefur samþykkt niðurrifið og harmar í umsögn sinni að svona sé komið fyrir húsinu.

Lengi vel var það venja í Vestmannaeyjum að gefa hverju húsi nafn en ekki finnast upplýsingar í fljótu bragði um hvort byggjendur hússins hafi eitthvað tengst Litla-Hrauni við Eyrarbakka en fangelsið þar var byggt 1929.

Viðhaldi á Litla-Hrauni í Vestmannaeyjum, sem er 67 fermetra einbýlishús, hefur verið það lítið sinnt undanfarin ár að húsið er ónýtt og óíbúðarhæft en húsið lítur mjög illa út fyrir utan að þakið er í góðu ásigkomulagi. Af ljósmynd af húsinu að dæma, á vef ljósmyndasafns Vestmannaeyja, sem sögð er tekin árið 2006 leit húsið betur út þá. Á þeirri mynd stendur að minnsta kosti timburklæðningin ekki óvarin eins og í dag. Hins vegar virðist myndin ekki segja allan söguna en fjórum eftir að hún var tekin greindi lögreglan í Vestmannaeyjum frá því að rúða í húsinu hefði verið brotin og að nokkrir ungir menn hefðu farið inn í það í heimildarleysi en húsið væri óíbúðarhæft. Árið 2016 greindi lögreglan síðan aftur frá innbroti í húsið og að þaðan hafi verið stolið fatnaði og verkfærum.

Oft á sölu

Ekki finnast upplýsingar í fljótu bragði um fleiri innbrot í húsið. Athygli vekur að það hefur verið auglýst til sölu nokkuð reglulega frá því í kringum síðustu aldamót en á þeim tíma var tekið fram í auglýsingum að söluverð hússins hefði verið lækkað til muna og að það væri heppilegt sem sumarhús. Það virðist því ljóst að húsið hefur flakkað milli eigenda sem virðast hafa ekki ráðið við allt það viðhald sem húsið hefur þarfnast á síðustu árum.

Húsið var síðast auglýst til sölu árið 2023 en í auglýsingunni kom fram að húsið væri ónýtt en að lóðaréttindi byðu upp á möguleika en lóðin er 293 fermetrar en eins og áður segir er húsið 67 fermetrar. Auglýsingin var tekinn úr birtingu eftir nokkra vikur og hefur það væntanlega verið gert vegna kaupa núverandi eiganda sem nú hefur fengið samþykki til að rífa húsið. Þegar húsið varð 100 ára árið 2011 var það friðað og eftir það þurfti heimild Minjastofnunar til að rífa það. Stofnunin veitti þá heimild árið 2021 eftir skoðun á ástandi hússins en það hefur ekkert batnað síðan þá.

Þakið lagað en síðan ekki söguna meir

Í umsögn Minjastofnunar frá 2021 segir að ljóst sé að húsið sé mjög illa farið og ástand þess óviðunandi. Veðurkápan, forskalning, tjörupappi og lektur, hafi verið fjarlægð og standi timburklæðningin því óvarin. Gluggar og dyr standi opin og hafi veðuröflin átt greiðan aðgang að innviðum hússins til niðurbrots. Þak hússins hafi verið endurnýjað fyrir nokkrum árum fyrir styrk úr húsafriðunarsjóði sem veittur var árið 2013.

Segir því næst um þáverandi eiganda að hann hafi eftir þetta ítrekað sótt um frekari styrki úr
húsafriðunarsjóði til endurbóta á húsinu en umsóknir hans hafi ekki uppfyllt lágmarksskilyrði m.a. um eigið fjárframlag. Vitnað er í tölvupóst byggingarfulltrúa Vestmannaeyja þar sem segi að til fjölda ára hafi sveitarfélagið gert athugasemdir vegna slæms ástands hússins. Eigandinn hafi ótal sinnum lofað bót og betrun en ekkert gerst og nágrannar væru mjög ósáttir við stöðu mála.

Harmur

Segir enn fremur í umsögninni að vettvangsskoðun hafi leitt í ljós að húsið sé mjög illa farið, helstu máttarviðir þess fúnir og húsið mikið breytt frá upphaflegri gerð. Varðveislugildi þess felist í aldrinum
auk þess sem það sé hluti af byggð eldri húsa sem hafi gildi fyrir bæjarmynd Vestmannaeyja.

Segist Minjastofnun Íslands harma að fyrri áform eiganda um endurgerð hússins sem nutu stuðnings úr húsafriðunarsjóði hafi ekki gengið eftir. Í ljósi ástands hússins sé Minjastofnun reiðubúin að aflétta friðun þess:

„Húsið er mjög mikið breytt frá upphaflegri gerð og nánast óviðgerðarhæft eftir margra ára vanhirðu.“

Stofnunin segir að lokum að frá sjónarhóli minjavörslu og umhverfis væri æskilegast að gera húsið upp í sem næst upprunalegri mynd en til þess þurfi að endurbyggja það að miklu eða öllu leyti úr nýju efni. Endar stofnunin síðan umsögnina á leiðbeiningum um að ef ráðist verði í nýbyggingu þurfi að huga sérstaklega að fornleifum á lóðinni.

Ekkert kemur fram í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs um hugsanlega nýbyggingu á lóðinni en með vísan til umsagnar Minjastofnunar var niðurrif hússins heimilað. Það er því ljóst að sögu Litla-Hrauns, sem hefur verið til vandræða í Vestmannaeyjum í langan tíma, fer að ljúka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hraðbankamálið: Lögreglan krefst gæsluvarðhalds yfir konu

Hraðbankamálið: Lögreglan krefst gæsluvarðhalds yfir konu
Fréttir
Í gær

Pósturinn lokar tímabundið fyrir vörusendingar til Bandaríkjanna

Pósturinn lokar tímabundið fyrir vörusendingar til Bandaríkjanna
Fréttir
Í gær

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann
Fréttir
Í gær

Hildur ómyrk í máli: „Enn eitt dæmið um stjórn­un­ar­vanda inn­an borg­ar­kerf­is­ins”

Hildur ómyrk í máli: „Enn eitt dæmið um stjórn­un­ar­vanda inn­an borg­ar­kerf­is­ins”
Fréttir
Í gær

Óforbetranlegur barnaníðingur samþykkti tillögu saksóknara um að hann verði geldur með skurðaðgerð

Óforbetranlegur barnaníðingur samþykkti tillögu saksóknara um að hann verði geldur með skurðaðgerð
Fréttir
Í gær

Prís alltaf verið með lægsta verðið

Prís alltaf verið með lægsta verðið