Lögreglan á Suðurnesjum ætlar ekki að hefja nýja rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni skilaði gögnum til embættisins í vor sem styðja eiga kenningu þeirra sem standa að útgáfunni um afdrif Geirfinns. Er þar um að ræða svokallaðan 13. kafla bókarinnar, sem er óbirtur í bókinni en ætlaður yfirvöldum.
Í bókinni sjálfri er greint frá því að sjónarvottur, sem var barn að aldri, hafi orðið vitni að heiftarlegum átökum Geirfinns og ónefnds manns fyrir utan heimili Geirfinns að kvöldi 19. nóvember árið 1974. Átökin hafi færst inni í bílskúr og þar hafi sjónarvotturinn séð manninn slá Geirfinn niður með þungu áhaldi.
Bæði sjónarvotturinn og meintur banamaður Geirfinns eru enn á lífi.
Í 13. kaflanum er meintur banamaður Geirfinns nafngreindur en ekki sjónarvotturinn. Jafnframt er bæði í bókinni og 13. kaflanum upphafleg rannsókn lögreglunnar í Keflavík á málinu gagnrýnd harðlega og í 13. kaflanum er því haldið fram að lögregla hafi vísvitandi hylmt yfir með morði Geirfinns.
Morgunblaðið sendi skriflega fyrirspurn til rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum um málið og í svari Nönnu Lindar Stefánsdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá embættinu, segir:
„Öll gögn sem borist hafa embættinu nýverið um mál Geirfinns Einarssonar hafa verið tekin til skoðunar en eru ekki nægjanleg svo unnt sé að taka rannsókn málsins upp að nýju. Því mun embættið ekki aðhafast frekar vegna þessa nema ný sakargögn komi fram.“
Aðstandendur útgáfu bókarinnar Leitin að Geirfinni ætlar að leita til ríkissaksóknara um að hann skipi fyrir um rannsókn á morðinu á Geirfinni. Höfundur bókarinnar, Sigurður Björgvin Sigurðsson, segir við Morgunblaðið:
„Við sem stóðum að útgáfu bókarinnar munum á næstu dögum fara þess á leit við ríkissaksóknara, Sigríði J. Friðjónsdóttur, að hún skipi fyrir um rannsókn á morðinu á Geirfinni. Við höfum allan tímann bent á að óheppilegt væri að málið færi inn á borð Keflavíkurlögreglunnar vegna tengsla við frumrannsóknina. Flestir Keflvíkingar, ekki bara lögreglumenn, eru tengdir einhverjum af rannsakendum málsins árið 1974 eða öðrum málsaðilum. Það er því heppilegast að rannsókn fari fram hjá öðru embætti. Ríkissaksóknari getur tekið ákvörðun um það og fyrir slíku eru mörg fordæmi.“